148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

norðurslóðir.

[14:43]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu. Hér er spurt um hver brýnustu verkefnin séu á norðurslóðum með tilliti til sjálfbærrar þróunar og hvaða málefni Ísland muni einkum leggja áherslu á í formennskutíð sinni.

Eins og fram hefur komið í fréttum og í skýrslum undanfarið er hlýnun á norðurslóðum tvöfalt hraðari en meðaltalið á öðrum svæðum. Það hefur og mun hafa víðtæk samfélagsáhrif, umhverfisáhrif og efnahagsleg áhrif. Brýnt er að áherslur í formennskutíð Íslands lúti að öllum þessum þremur hliðum sjálfbærninnar. Fyrst og fremst þarf að gæta að því að allt sem samtök þjóða vinna að sé ákveðið í samráði við samfélögin á norðurslóðum. Áhrifin verða mismikil eftir svæðum og misafdrifarík fyrir samfélögin. Því þarf að gera allt sem mögulegt er til að vinna gegn hlýnun jarðar, það verða allir að standa sig og við Íslendingar verðum að líta í eigin barm hvað það varðar og girða okkur í brók.

Með hlýnun á norðurslóðum verða auðlindir aðgengilegri til nýtingar. Hætta er á að einhverjir líti til skjótfengins gróða með því að fénýta auðlindirnar án virðingar við umhverfi og samfélag. Vinna þarf gegn rányrkju, hvort sem er á sjó eða landi, og stjórnvöld verða að gera skýra kröfu til samfélagslegrar ábyrgðar þeirra fyrirtækja sem starfa eða vilja hasla sér völl á norðurslóðum við þessar breyttu aðstæður.

Í öllum aðgerðum verður að líta til áhrifa loftslagsbreytinga á lífríki hafsins. Súrnun sjávar, hlýnun hafsins, hækkandi yfirborð sjávar, plastmengun í hafinu og rányrkja eru allt ógnir sem vinna þarf gegn með kröftugum og skýrum hætti.