148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

norðurslóðir.

[14:49]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Málefni norðurslóða eru okkur vissulega mikilvæg, öllum heiminum. Nú er í gangi hnattræn tilraun, sem ekki er stjórnað, í brennslu gróðurhúsalofttegunda. Það virðist hafa mikil áhrif á golfstrauminn sem aftur getur haft mikil áhrif á hitastigið hér á norðurslóðum sem eru, þegar allt kemur til alls, lungu plánetunnar.

Barrskógarnir á norðurslóðum anda inn koltvíoxíðinu og út súrefninu sem stjórnar að miklu leyti til þeirri hringrás súrefnis sem er í heiminum. Frumskógarnir við miðbaug viðhalda ákveðnu ástandi en öndunin á sér stað hér á norðurslóðum. Við þurfum að huga sérstaklega að þessum umhverfisaðstæðum. Við erum ekki að fara að ná í olíu, takk. Það á ekki að gerast. Við eigum ekki að fara í stefnumótun um það að draga olíu upp úr hafinu hér við Ísland, þó að við getum það.

Við verðum að taka okkur ákveðna stöðu gagnvart þeirri framtíð sem við sjáum fram á og aðstöðunni sem við erum í. Það er verið að gera þessa hnattrænu tilraun, við vitum ekki til hvers. Við vitum hverjar afleiðingarnar af henni verða. Það er annaðhvort ofhitnunin sem verður slæm eða þá að það hægist á golfstraumnum og kulnun verður á norðurslóðum. Það hefur áhrif á lungu veraldar sem gerir að verkum að við verðum aftur í svipaðri stöðu og á síðustu ísöld, löndin sem voru undir ís.