148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

norðurslóðir.

[14:58]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundsyni fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu og hæstv. ráðherra fyrir hans svör og þátttöku. Ég er á þeirri skoðun að við þurfum að ræða utanríkismál meira í þessum sal. Ísland er norðurslóðaríki og við eigum gríðarlega ríkra hagsmuna að gæta á norðurslóðum. Það er því mikilvægt að þróunin á svæðinu verði friðsæl, sjálfbær og hagfelld fyrir Ísland.

Í stjórnarsáttmálanum er fjallað sérstaklega um norðurslóðir. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Auknum siglingum og annarri starfsemi fylgja tækifæri en líka áskoranir gagnvart umhverfi, lífríki og lífsháttum. Viðkvæmt vistkerfi norðurslóða á að fá að njóta vafans. … Málefni norðurslóða snerta nær allar hliðar íslensks samfélags og eru forgangsmál í íslenskri utanríkisstefnu. Ísland mun á vettvangi Norðurskautsráðsins einkum leggja áherslu á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, loftslagsmál og málefni hafsins.“

Vaxandi tengsl ríkja á norðurslóðum eiga að leiða til aukinnar þátttöku í vísinda-, þróunar og nýsköpunarstarfi. Milli þessara ríkja og þeirra ríkja sem hafa sýnt áhuga á málefnum norðurslóða, en þau eru reyndar orðin æði mörg enda flest ríki búin að átta sig á mikilvægi norðurslóða og framtíðarþróunar þar fyrir allan heiminn, er samstarf brýnt. Ein af tillögunum sem settar eru fram í skýrslu utanríkisþjónustunnar til framtíðar tekur einmitt á þessu mikilvæga samstarfi en þar er fjallað um mikilvægi þess að stuðla að aukinni þátttöku íslenskra vísinda- og fræðimanna í fjölbreyttu rannsóknarsamstarfi á norðurslóðum, m.a. með sérstakri rannsóknaráætlun í samstarfi við háskóla og rannsóknarstofnanir.

Á síðasta ári var samþykktur samningur um vísindasamstarf á norðurslóðum á vettvangi Norðurskautsráðsins. Þungamiðjan í starfi Norðurskautsráðsins er í gegnum sex vinnuhópa og hefur framlag þeirra til aukinnar þekkingar á umhverfi, lífríki og samfélögum á norðurslóðum verið mikilvægt. Fyrir okkur er einnig mikilvægt að skrifstofur tveggja þessara vinnuhópa, annars um verndun lífríkisins og hins vegar um málefni hafsins, eru staðsettar hér á landi, nánar tiltekið á Akureyri sem hægt er að tala um sem höfuðborg okkar í norðurslóðamálum. Mikilvægt er að styðja enn frekar við samstarf íslenskra aðila á vettvangi rannsókna, vísinda og nýsköpunar. Ég treysti því að hæstv. utanríkisráðherra muni beita sér fyrir því í sínum störfum, bæði innan og utan lands.

Þá get ég ekki látið hjá líða að nefna mikilvægi þekkingar okkar á sviði endurnýjanlegra orkugjafa, (Forseti hringir.) þá sérstaklega jarðhita. Sú þekking okkar er ekki bara útflutningsvara heldur líka framlag til þróunaraðstoðar. (Forseti hringir.)Því sætir það mikilli furðu að ekkert íslenskt einkaleyfi sé til staðar þegar kemur að jarðhita. Ég vísa í fyrirspurn mína og umræðu við hæstv. iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, en (Forseti hringir.) ég tel mikilvægt að sú nýsköpunarstefna sem er í burðarliðnum taki á grundvallarþáttum okkar þegar kemur að sérstöðu og þekkingu og virkjun jarðhita hlýtur að falla þar undir.

(Forseti (JÞÓ): Forseti vill minna þingmenn aftur á að halda ræðutíma.)