148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

norðurslóðir.

[15:01]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að fagna orðum hæstv. utanríkisráðherra og fleiri hv. þingmanna hér áðan um að Akureyri sé norðurslóðamiðstöð Íslands. Það er einmitt það sem ég vil tæpa á hér, þ.e. því mikilvæga hlutverki sem Akureyri hefur í norðurslóðamálum. Má sem dæmi nefna að Háskólinn á Akureyri er stofnaðili að Háskóla norðurslóðanna og er raunar eini háskólinn á Íslandi sem hefur norðurslóðamálefni sem kjarna í heildarstefnu sinni og býr að sterku tengslaneti í fræðasamfélagi norðurslóðarannsókna. Á Akureyri eru einnig stofnanir eins og stofnun Vilhjálms Stefánssonar, skrifstofa Alþjóðanorðurskautsvísindanefndarinnar, Norðurslóðanetið og skrifstofur CAFF og PAME. Þá hefur sveitarfélagið sýnt mikinn metnað í þátttöku í norðurslóðastarfi og markað sér sérstaka stefnu í norðurslóðamálum.

Að lokum nefni ég jafnréttisstofu, en jafnrétti er einmitt eitt af þeim meginmálefnum sem sífellt koma upp í tengslum við málefni norðurslóða. Er tækifæri fyrir Íslendinga að vera til fyrirmyndar í þeim málaflokki gagnvart norðurslóðum.

Þá hafa fyrirtæki á svæðinu stofnað samtök sín á milli, Arctic Services, sem er ætlað að sinna þjónustu við Grænland á sviði iðnaðar og tækni. En í því samhengi má nefna hvort ekki sé tími til að horfa frekar til tækni og nýsköpunar í norðurslóðamálum í stað þess að horfa til olíu og stóriðnaðar.

Mikilvægt er að Akureyri sem miðstöð norðurslóða hafi aðkomu að undirbúningi á verkefnum sem framkvæmd verða í formennskutíð Íslands og að Akureyri verði nýtt sem best sem vettvangur fyrir samtal um norðurslóðir.

Mig langar að nýta þetta tækifæri til að bjóða hæstv. ráðherra að koma norður í þinghléinu og heimsækja þá fjölmörgu sem vinna að norðurslóðamálum á Akureyri. Þá langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann muni leggja fram tillögu um að Akureyri verði formlega viðurkennd sem miðstöð norðurslóða og að byggðir verði upp innviðir norðurslóðamála þar líkt og Norðmenn hafa gert í Tromsö? Ég get nefnt fleiri staði.

Sömuleiðis langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann telji að gangi hjá aðildarríkjum Norðurskautsráðsins að samtvinna sjónarmið um verndun umhverfis, menningar og samfélaga, en á sama tíma að horfa á aðgengi að svæðinu og fulla nýtingu auðlinda þar.