148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

norðurslóðir.

[15:18]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka ekki bara hv. frummælanda heldur öllum hv. þingmönnum fyrir gott innlegg inn í þessa umræðu. Mér fannst umræðan einkennast af samhljómi og samstöðu í þessu mikilvæga máli.

Það var farið vítt og breitt, ég get auðvitað ekki á þessum tveimur mínútum farið yfir allt það sem hér kom fram. En mér finnst ágæt sú samlíking að norðurskautið væri í rauninni andstæðan við Las Vegas. Allt það sem gerist á norðurslóðum munum við finna fyrir, allur heimurinn með einhverjum hætti. Þess vegna er ekkert skrýtið að menn ræði þetta í þessu stóra samhengi.

Það sem menn vilja alls ekki sjá er það að þetta verði vettvangur þar sem verði spenna í heiminum, það verði vígbúnaðarkapphlaup og þarna verði tekist harkalega á. Það sem við viljum er auðvitað að reynt verði að koma í veg fyrir þessar umhverfisógnir sem að okkur steðja eins mikið og mögulegt er. En þrátt fyrir það munum við væntanlega sjá miklar breytingar og þegar siglingaleiðirnar opnast, sem allar líkur eru á, verður það ekkert ósvipað eins og gerðist þegar Panama-skurðurinn eða Súes-skurðurinn var opnaður. Þetta er 40% stytting á siglingaleiðinni milli Evrópu og Asíu. Þá er afskaplega mikilvægt að öll þau samskipti verði með friðsamlegum og uppbyggilegum hætti og auðvitað unnið með sjálfbærni að leiðarljósi.

Hér voru ræddir hlutir eins og t.d. öryggis- og björgunarmál. Það er nokkuð sem við Íslendingar þurfum að hafa frumkvæði í, þurfum svo sannarlega að starfa með öðrum. Það verða ekki margir aðrir staðir mikilvægari en Ísland þegar kemur að þessum þáttum.

Menn þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að það verði ekki unnið með Akureyri sem ég nefndi hér að væri höfuðstaður norðurslóða á Íslandi, en auðvitað þurfa mjög margir aðrir aðilar að koma að málinu. Stóra málið í þessu er að hér á að vera samráð og samvinna íslenskra aðila. Það er góðs viti að hlusta á hv. þingmenn hér í dag. (Forseti hringir.) Ég á von á því að við munum eiga áfram gott samstarf, því það er afskaplega mikilvægt að þetta stóra verkefni okkar takist vel.