148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

fjarskipti.

390. mál
[15:35]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hérna er því bætt við að klausa sem felur í sér rétt á upplýsingum gildi ekki um notkun eða aðgang að efni eða þjónustu sem brýtur gegn öðrum lögum eða dómsúrskurði. Ég get ekki annað en minnst á það að í íslenskum lögum er ansi mikið af afturhaldssömum hlutum sem hafa mjög neikvæð áhrif á tjáningarfrelsi. Til að mynda erum við með mjög vonda hatursáróðursgrein, hún er óljós og ónákvæm og enginn veit raunverulega hvað hún þýðir nema Hæstiréttur af og til.

Það er fleira í íslenskum lögum sem varðar tjáningarfrelsi sem ég tel þurfa að laga áður en sett eru inn svona skilyrði. Þess vegna greiði ég atkvæði gegn þessari tilteknu breytingu. Þótt ég átti mig á því að hún muni samt sem áður ganga í gegn mun ég greiða atkvæði með greininni eins og hún stendur eftir það. Ég hefði frekar viljað að þessi tiltekna breyting hefði ekki verið gerð.

Að því sögðu skilst mér af öðrum að lagatæknileg áhrif hennar séu engin. Mitt mat er að þau séu einhver. Þess vegna myndi ég af þeim ástæðum einum og sér reyndar greiða atkvæði gegn henni.