148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

markaðar tekjur.

167. mál
[16:51]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Varðandi fjárstjórnarvald Alþingis þá tek ég undir með þingmanninum. Mér líður líka eins og það hafi ekki styrkst. Það höfum við rætt í fjárlaganefnd og ræddum hér meðan við vorum að fjalla um frumvarp til laga um opinber fjármál. Ég ræddi það ítrekað og var ekki sátt við þau lög eins og kom fram í atkvæðagreiðslu minni um þau. Þess vegna nefndi ég það í minni ræðu áðan að ég held að við þurfum líka, þegar reynslan er komin, alla vega a.m.k. eitt rennsli, að setjast aðeins yfir það.

Hvað erum við að gera vel og hvað þurfum við að gera betur? Hvernig fáum við þessa tilfinningu að við höfum raunverulegt fjárstjórnarvald? Eins og hv. þingmaður þekkir, sérstaklega fyrsta árið eftir innleiðinguna eða eftir að lögin voru staðfest, þá heyrðist það mjög mikið og var svolítið þannig að fólki fannst það hafa misst þetta allt saman til framkvæmdarvaldsins. Hluti af þessu er auðvitað afnám markaðra tekna sem hangir við þessi lög sem er alveg hárrétt. Það er kannski það sem einhverjar stofnanir hafa líka áhyggjur af.

Sértekjur stofnananna. Það er auðvitað sagt í þessu frumvarpi og er kannski að hluta til jákvætt og neikvætt, þ.e. að stofnanir vaxi ekki bara eftir því sem sértekjurnar vaxa og að reksturinn dragist saman eftir því sem sértekjur dragast saman. Þær eiga a.m.k. að geta verið starfhæfar. Þær eiga að standa undir þeim verkefnum og stofnanarekstri sem þeim er falið. Við ætlum okkur ekkert annað held ég hér á þingi en að hafa það þannig. Ég lít a.m.k. þannig á. Þess vegna er frumvarpið meira og minna hálfmarkað (Forseti hringir.) vegna þess að skrefið var ekki stigið að öllu leyti.

(Forseti hringir.)Varðandi sértekjurnar og annað þá vona ég að þær eigi ekki að vaxa og dragast saman.