148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

markaðar tekjur.

167. mál
[16:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eitt hefur ekki komið fram í umræðunni til þessa, að ég held, sem mig langar að velta upp við hv. þingmann. Nú hefur hv. þingmaður setið lengur í fjárlaganefnd en bara þetta kjörtímabil, ef ég man rétt, þannig að ég velti fyrir mér hvort það hafi verið rætt í nefndinni á einhverjum tímapunkti hvort það að fara þessa leið, að taka af sértekjur t.d. af stofnunum eða ríkisfyrirtækjum eða slíku, kynni að draga úr hvata til þess að stunda t.d. rannsóknir og nýsköpun og þess háttar þar sem sértekjur skipta kannski meira máli en annars staðar, þ.e. að fá til sín aðila sem eru til í að kaupa þjónustu sem menn hafa svo færi á að þroska og láta vaxa í alls konar vísinda- og rannsóknarstarfi.

Ég velti því upp áðan í andsvari við hv. þm. Willum Þór Þórsson hvort betra hefði verið að vinna málið betur. Ég held að nefndin hafi ekki unnið málið neitt illa, ég var ekki að segja það, heldur hvort betra hefði verið að taka á öllum þeim vafaatriðum sem út af standa. Það kemur augljóslega fram í nefndarálitinu að það eru spurningar um hitt og þetta, þetta er málamiðlun, réttilega. Þá er ég ekki að segja að málið eigi ekki að klárast. Ég er einfaldlega að segja að ég fæ ekki séð að það liggi svo mikið á því að taka þetta skref þegar allt hitt er óafgreitt. Það getur vel verið að ég hafi rangt fyrir mér, en ég sé að það er margt óklárað enn þá. Það þarf að eyða ákveðinni óvissu og slíkt.

Allt þetta mál hins vegar í kringum lög um opinber fjármál og ég ber ábyrgð þar að hafa samþykkt allt það, með mikilli eftirsjá get ég sagt í dag, er eins og svokölluð salamí-taktík. Það er eitt og eitt mál sem fer inn, eitt og eitt. Núna er það þetta mál, markaðar tekjur. Á endanum erum við búin að gleypa alla pylsuna. Þá held ég að geti verið erfitt að snúa við. (Forseti hringir.) Það er það sem ég hef áhyggjur af.