148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

markaðar tekjur.

167. mál
[17:17]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Vissulega stendur fjárlaganefnd saman í þessu máli, það skortir ekkert á það, jafnvel þótt í þessum áfanga sé ekki miðað við að stíga skref nema að hluta. En ég er ekki í vafa um að í ljósi þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram muni geta tekist samræður á vettvangi nefndarinnar um flöt á því að stíga skrefið til fulls ef mögulegt er.

Ég vil nota tækifærið þegar við tölum um svo viðamikið og þungt mál eins og hér um ræðir og þakka hv. formanni fjárlaganefndar, Willum Þór Þórssyni, fyrir forystu hans fyrir nefndinni og hans góðu viðleitni til að leiða fram öll sjónarmið og halda á málum með þeim hætti að hér er uppi sú samstaða sem raun ber vitni. En ég ítreka að miðað við það hlutverk Alþingis að vera æðsta vald í málefnum þjóðarinnar sýnist mér sjálfsagt mál að það verði að minnsta kosti rætt, það sé einnar messu virði, hvort það séu færir vegir til þess að gera meira til að ljúka þessu máli með viðunandi hætti. Ef við verðum að taka þetta mál upp öðru sinni (Forseti hringir.) geta sprottið hér upp hvers kyns draugar með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir málið í heild sinni.