148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

markaðar tekjur.

167. mál
[17:22]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að lengja þessa umræðu mikið, ég vil bara árétta aðeins það sem ég hef komið að í andsvörum varðandi þetta mál.

Það er ljóst af ræðum þingmanna, ja, kannski ekki ljóst, það má lesa svona á milli línanna í ræðum þingmanna, að mönnum finnst þeir einhvern veginn vera á vagni að klára mál sem er þokkaleg sannfæring fyrir. Eitthvað á eftir að laga, eitthvað sem þarf að bæta o.s.frv. Hér hafa líka komið fram ákveðnar efasemdir um málatilbúnaðinn í heild, þ.e. opinberu fjármálin, og er sá sem hér stendur ekki undanskilinn þeim efasemdum. Ég spurði einn ágætan þingmann út í fjárstjórnarvald Alþingi. Ég fæ ekki séð hvernig þetta mál styrkir fjárstjórnarvald Alþingis. Mín upplifun af öllum þeim breytingum sem orðið hafa á opinberum fjármálum er að fjárstjórnarvald Alþingis hafi veikst frekar en hitt.

Hafandi setið hinum megin við borðið, þá er ég enn þá sannfærðari um það í rauninni, að framkvæmdarvaldið stendur sterkara eftir þessar breytingar heldur en áður. Það er mjög mikilvægt að þingið nýti þó það vald sem það á að hafa til þess að hafa skoðanir og til þess að breyta því sem til þess kemur og við munum að sjálfsögðu þurfa að fylgja því eftir.

Hér hefur aðeins verið rætt um markaðar tekjur, hvað þær kallast og hverjar þær eru. Hér var nefnt m.a. að nefskattur væri ekki það sama og markaðar tekjur, vegna þess að allir borguðu nefskatt. Jú, það eru í sjálfu sér ágætisrök en ég veit ekki betur en t.d. öll fyrirtæki greiði markaðsgjald sem rennur til Íslandsstofu og það eru markaðar tekjur, sértekjur, þannig að þetta er ekki alveg svona klippt og skorið. Ég held þess vegna að ef menn ætla að ganga alla leið í þessu þá þurfi að skoða þetta mál betur, eins og er í rauninni sagt til um í nefndarálitinu. Ég held að nefndin hafi gert mjög gott að draga fram þessar vangaveltur, draga fram þær áhyggjur sem augljóslega eru fyrir hendi. Það er mikilvægt að við höfum þær með okkur í frekari vinnu. Það eru ágætar skýringar á því hvað eru markaðar tekjur í nefndarálitinu og svo sem í frumvarpinu líka. Hér eru raktar tölur, upphæðir o.s.frv.

Ég kom hér í andsvar og lýsti yfir áhyggjum út af stofnunum sem hafa byggt t.d. sinn rekstur 40–50% á sértekjum, hvort þær fái það bætt. Ég vona að svo verði en að sjálfsögðu, ég segi að sjálfsögðu, ætti Alþingi að geta bætt þar úr þegar fjárlög koma til kasta Alþingis og fjárlaganefndar, að því gefnu að menn fái þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru. Það er nefnilega þannig að þegar við sjáum fjárhagsrammann sem ráðuneytunum er ætlað að starfa eftir og ráðuneytin senda inn, þá er ekki endilega sundurgreint niður á stofnun hvert framlagið á að vera, ef ég man þetta rétt.

Það kemur fram í nefndarálitinu að það hefði mátt vera meira samráð og samband við vinnumarkaðinn og rétt er það. Að meginstofni til er það sem snýr að vinnumarkaðnum tekið út fyrir sviga. Það gerir að verkum að ég spyr mig hvort það hefði átt að taka umræðuna alla leið og klára þetta í einum pakka ef það er vilji til þess að gera það eða hvort við séum komin inn á þá braut að skilja drjúgan hluta eftir af mörkuðum tekjum, sértekjum, fyrir utan málið, fyrir utan svigann ef við getum orðað það þannig.

Annað sem ég velti fyrir mér er það sem talað er um í nefndarálitinu og er hið besta mál, að menn fái að lágmarki það sem er gert ráð fyrir eins og nefnt er hér t.d. varðandi Framkvæmdasjóð aldraðra. Ef það kemur eitthvað meira lendir það bara í stóru hítinni, væntanlega. Það er í sjálfu sér ekkert að því en við aðrar aðstæður hefði kannski getað verið meiri vöxtur í ákveðnum stofnunum eða framkvæmdum eða verkefnum sem þær hafa.

Ég ætla að leyfa mér að hafa líka áhyggjur af því að hvatinn til þess að verða sér úti um verkefni og tekjur kunni að minnka þegar sértekjurnar hverfa, þegar þetta er orðin bara ein hít. Ég er ekki að segja að það verði en það kann að verða. Stofnanir og fyrirtæki hafa þurft að sækja sér verkefni til þess að viðhalda starfseminni. Nú getur verið að á þessu sé mjög einföld lausn og þá fagna ég því að sjálfsögðu.

Frú forseti. Ég held að mál þetta sé eitthvað sem við vissum að kæmi og að við myndum þurfa að ræða og afgreiða á þinginu. Nefndin er sammála um þessa afgreiðslu, það eru einhverjir með fyrirvara, ég hef ekki heyrt í dag hverjir þeir fyrirvarar eru. Það kemur kannski síðar fram eða í umræðum á eftir, en þetta vildi ég árétta hér í ræðu.