148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

markaðar tekjur.

167. mál
[17:28]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að halda mjög langa ræðu um þetta ágæta mál en mig langar þó að tæpa á nokkrum atriðum. Ég sit sem áheyrnarfulltrúi í fjárlaganefnd og lýsti mig einmitt samþykkan nefndaráliti nefndarinnar. Engu að síður eru nokkur atriði sem mér finnst vert að huga að. Þetta er mál sem hefur verið mjög lengi í undirbúningi af hálfu fjármálaráðuneytisins og í anda nýrra laga um opinber fjármál.

Ég er sammála þeirri grundvallarhugsun í öllum megindráttum að rjúfa þessa mörkun tekjustofna, að það sé á hendi Alþingis að ákvarða fjárveitingar til viðkomandi ríkisaðila í fjárlögum hvers árs. Það er ekki hentugt til lengri tíma litið að við séum með fjölmarga sérstaka skatta sem eiga síðan að renna í einhver mörkuð verkefni. Það gerir fjárstýringu ríkisins erfiðari.

Það eru hins vegar nokkrir þættir sem ég staldra við í þessu, í fyrsta lagi að í sumum tilvikum erum við í raun og veru ekkert að afnema mörkun. Við erum í dálitlu brasi með ákveðna liði sem er þá farin einhver hálfkáksleið að því að afnema en þó tryggja viðkomandi aðilum fjármögnun að því lágmarki sem mörkun hefði áður tryggt þeim. Að vissu leyti mætti segja að með betra samráði ráðuneytisins við aðila á fyrri stigum málsins hefði kannski mátt finna hentugri lausnir í þessu og mér finnst stundum dálítið bjúrókratísk nálgun þar sem við virðumst vera búin að festa okkur í prinsippinu um afnám mörkunar alls staðar en í raun höldum við henni síðan sprelllifandi með annars konar mörkun. Mér hefði liðið betur með varanlegri lausn á því en tíminn verður þá bara að leiða í ljós hvort okkur verður eitthvað frekar ágengt í þessu. Mikið og stórt skref er stigið í því að afnema þessar fjölmörgu markanir teknar að stærstum hluta.

Það sem mér þykir áhugaverðara og saknaði úr meðhöndlun fjármálaráðuneytisins á þessu er að marga af þessum sérstöku sköttum mætti afnema líka og fella inn í einfaldara og skýrara skattkerfi. Ég sakna þess að tækifærið hafi ekki verið notað til að fara samhliða því sem rofið var á milli yfir það hvað af þessari skattheimtu ætti enn þá við og hvað ekki. Ég treysti því að fjármálaráðuneytið sé mjög áhugasamt um að taka þá vinnu upp síðar enda fjölmargir skattstofnar þarna sem mætti alveg hlífa eða fella inn í einfaldara, skýrara og skilvirkara skattkerfi.

Það er hins vegar annað atriði sem truflar mig dálítið enn þá þrátt fyrir að ég sé á nefndarálitinu og það er hvernig verið er að meðhöndla vinnumarkaðstengd iðgjöld, við getum kallað það svo, eða það sem fellt hefur verið undir tryggingagjald í gegnum tíðina og við erum enn í einhverri reddingu að meðhöndla mismunandi þætti þarna, þá þann hluta tryggingagjalds sem ætlaður er til fjármögnunar á atvinnuleysistryggingum og fæðingarorlofi, svo dæmi sé tekið, sem er undanskilið afnámi mörkunar sem ég held að sé skynsamlegt. Þetta eru réttindatengd iðgjöld sem hefur gjarnan verið samið um í kjarasamningum í gegnum tíðina og er í raun beinn skattur á atvinnurekendur til að fjármagna þau réttindi sem launþegar ávinna sér með þátttöku á vinnumarkaði, m.a. rétturinn til fæðingarorlofs og atvinnuleysisbóta. Ég held að það sé rétt að halda þessu utan við afnám mörkunarinnar. Ég hefði viljað sjá að þarna væri öðrum þáttum eins og t.d. starfsendurhæfingunni og kannski framlaginu til Ábyrgðasjóðs launa haldið til haga líka. Þetta eru iðgjöld af sama meiði og er ætlað að dekka með einhverjum hætti ábyrgð vinnuveitenda gagnvart launþegum.

Ég held að það sé skynsamlegt að fara í talsverða vinnu og uppstokkun á þessu fyrirkomulagi. Það væri auðvitað mjög heppilegt þegar við horfum á fjárhæð tryggingagjalds til lengri tíma litið að stjórnmálin séu ekki að fikta í þessum hluta tryggingagjaldsins frá einu ári til annars. Því miður hefur það gjarnan verið notað til skamms tíma til að fjármagna ríkissjóð að fegra að einhverju leyti afkomuna, t.d. að þegar vel árar í hagkerfinu og útgjöld þessara sjóða eru minni er tryggingagjaldinu engu að síður haldið uppi til að bæta afkomu ríkissjóðs. Þarna væri miklu heppilegra að tekin yrði upp sú stefna að draga þetta helst sem mest út úr fjárlagagerðinni, jafnvel undir C-hluta ríkisbókhaldsins, og semja um jafnaðargjald til að fjármagna bæði fæðingarorlof og atvinnuleysistryggingarnar sem eru langstærstu útgjaldaliðirnir en þá að sama skapi aðra þá þætti sem þarna eru tengdir, eins og starfsendurhæfinguna og Ábyrgðasjóð launa og reyndar jöfnun örorkubyrði lífeyrissjóða.

Þessar aðfinnslur mínar eru alls ekki af því taginu að ég treysti mér ekki til að styðja við þetta mál. Eins og fyrr segir er ég á nefndarálitinu en ég held að þetta tvennt þurfi að taka til skoðunar, annars vegar hvernig við háttum til lengri tíma litið þeim þætti tryggingagjalds sem snýr að þessum réttindum á vinnumarkaði og hins vegar þeirri grisjun sem mér finnst einboðið að fara í á skattkerfinu í kjölfarið og taka marga af smærri sköttunum til endurskoðunar, hvort þeir eigi enn rétt á sér þegar búið er að rjúfa svo á milli að þeir eru ekki lengur til fjármögnunar á einstökum verkefnum á vegum ríkisins.