148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

landhelgi, aðlægt belti, efnahagslögsaga og landgrunn.

418. mál
[17:36]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Ég lýsi mig hlynntan þessu frumvarpi og meginefni þess en vil gera við það ákveðnar athugasemdir. Eins og útskýrt er í greinargerð telst nauðsynlegt að leiðrétta heiti nokkurra punkta og röð þeirra sem marka efnahagslögsöguna og þar með landgrunnið. Það kemur fram að lega grunnlínu hafi bjagast á tveimur stöðum og er útskýrt með eftirfarandi hætti, með leyfi forseta:

„Á þeim stöðum er grunnlínan ekki í beinu línulegu framhaldi milli grunnlínupunktanna frá vestri til austurs, til samræmis við náttúrulegar aðstæður á því svæði, heldur liggur fram hjá einum punkti í þarnæsta punkt til austurs, gengur síðan til baka til vesturs í punktinn sem hún lá fram hjá og síðan í þarnæsta punkt til austurs. Þótt bjögunin á grunnlínunni vegna þessara fjögurra punkta sé ekki stórvægileg hefur hún áhrif á afmörkun landhelginnar, aðlæga beltisins, landgrunnsins og efnahagslögsögunnar. Óhjákvæmilegt er því að leiðrétta tilgreiningu punktanna og er það gert með frumvarpi þessu.“

Ég lýsi mig sammála þeirri þörf sem hér er lýst og mikilvægi þess að þetta sé leiðrétt, en vil þó taka fram að ef vel ætti að vera og við vildum fá það sem ég myndi kalla rétta niðurstöðu varðandi punktana sem marka efnahagslögsögu og um leið landgrunnið þyrftum við að taka Jan Mayen með í reikninginn. Jan Mayen er og hefur alltaf verið íslensk eyja og þó að samningaviðræðum við Norðmenn á sínum tíma, einkum í kringum 1980, mig minnir að þeim hafi lokið 1980, hafi lokið með ákveðinni eftirgjöf af hálfu beggja aðila frá þeim kröfum sem uppi voru í málinu er engin ástæða til að líta fram hjá því að jarðfræðilega, landfræðilega og jafnvel sögulega er Jan Mayen íslensk eyja, nyrsta eyja Íslands. Hún hét raunar á Íslandi Svalbarð en nú notast menn yfirleitt við nafnið Jan Mayen til aðgreiningar frá eyjaklasanum Svalbarða sem Norðmenn hafa einnig ásælst og lagt undir sig að vissu leyti.

Ástæðan fyrir því að ég tek þetta upp núna er sú að hér er leitast við að færa inn ákveðnar leiðréttingar og það gefur tilefni til að velta fyrir sér hvort ekki kunni að vera tilefni til þess að taka þessi mál upp aftur því að samningnum við Norðmenn lauk ekki hvað síst með ákveðnu samkomulagi um samstarf ríkjanna til framtíðar er varðar nýtingu landgrunnsins í kringum Jan Mayen og milli Jan Mayen og Íslands og nýtingu hugsanlegra auðlinda sem þar kynni að vera að finna, einkum olíu og gass. Það er ástæða til að rifja það upp að Eyjólfur Konráð Jónsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, beitti sér mjög í þessu efni og lagði mikið á sig við að draga fram hagsmuni Íslands á þessum slóðum og færa rök fyrir réttmæti krafna Íslendinga.

Eins og ég nefndi áðan byggja kröfurnar á sterkum rökum þegar litið er til þess hvernig landgrunn er skilgreint og réttinda ríkja til hafs og nýtingar auðlinda á sjávarbotni og lögsögu. Það er óumdeilt að mínu mati að Jan Mayen er beint framhald og landgrunnið þar í kring af íslenska landgrunninu, þetta er hluti af sama kerfi. Eins og ég rakti var þessi samningur gerður og byggðist ekki hvað síst á hugsanlegum olíu- og gaslindum og samstarfi ríkjanna hvað það varðar.

Ekki alls fyrir löngu ákváðu Norðmenn skyndilega að hverfa frá þessu samstarfi. Allan þann tíma sem það hafði verið til skoðunar að nýta þarna olíu- og gaslindir höfðu þeir haldið því áfram og raunar voru, eins og menn þekkja, hafnar miklar rannsóknir á landgrunninu suðvestur af Jan Mayen, á Drekasvæðinu svokallaða, sem höfðu gefið til kynna að sú fyrirhyggjusemi á sínum tíma að treysta þarna rétt Íslendinga þótt við hefðum ekki náð því sem ég myndi kalla rétta niðurstöðu en náðum talsverðum árangri — þessar rannsóknir höfðu gefið til kynna að þarna væri líklega um umtalsverðar auðlindir að ræða, talsverðar olíulindir en þó sérstaklega gaslindir.

Til stóð að halda rannsóknunum áfram með það að markmiði að hefja vinnslu eftir fáein ár, atriði sem augljóslega myndi skipta sköpum fyrir Íslendinga efnahagslega og reyndar kannski pólitískt líka, og menn höfðu lagt drög að framhaldinu, gert áætlun á grundvelli þeirrar vinnu sem fram hafði farið. Norska Stórþingið hafði meira að segja samþykkt að stórauka — mig minnir að það hafi falið í sér margföldun — framlög Norðmanna til þessara sameiginlegu rannsókna sem fara að vísu ekki fram af hálfu ríkisins beint en heyra undir stjórnvöld hér og Orkustofnun. Norðmenn höfðu samþykkt að halda þessu samstarfi áfram og leggja til þess verulegt fjármagn í ljósi þeirra jákvæðu vísbendinga sem þarna höfðu fundist.

Svo varð breyting á ríkisstjórn Noregs, þar kom inn nýr stjórnmálaflokkur, og um svipað leyti ákvað kínverska ríkisolíufélagið CNOOC að draga sig út úr verkefninu. Það hafði sem sagt verið unnið á vegum þriggja aðila, eins íslensks aðila, þessa kínverska aðila og Norðmannanna. Aðeins fáeinum dögum eftir að norska þingið samþykkti að auka framlögin, bæta í rannsóknirnar, tóku norsk stjórnvöld skyndilega ákvörðun um að draga sig út úr samstarfinu.

Við hljótum að velta fyrir okkur hvers vegna þetta hafi gerst. Það hefur ekki gerst á grundvelli rannsóknanna, það hefur ekki gerst á þeim grunni að menn hafi ekki talið þetta skynsamlega fjárfestingu sem búið var að ákveða að ráðast í nokkrum dögum áður. Að ýmsu er að hyggja hvað þetta varðar.

Samskipti Norðmanna við Kínverja virðast hafa farið jafnt og þétt batnandi frá því að sambandið nánast rofnaði milli ríkjanna vegna deilu um nóbelsverðlaunahafa. Íslensk stjórnvöld hafa að mínu mati á sama tíma, undanfarin tvö ár eða svo, vanrækt mjög samband Íslands og Kína.

Hitt sem við þurfum sérstaklega að líta til er í hverju hagsmunir Norðmanna liggja varðandi nýtingu auðlinda á norðurslóðum. Ég geri ekki lítið úr því að norska þjóðin er mjög vinveitt þeirri íslensku. Ég hef a.m.k. aldrei orðið var við annað. Norsk stjórnvöld hafa hins vegar árum og áratugum saman, árhundruðum jafnvel, verið mjög harðdræg, jafnvel á tímum ósvífin í garð Íslendinga, a.m.k. gengið mjög hart fram við að verja það sem þeir líta á sem hagsmuni Noregs í samskiptum við önnur ríki, ekki hvað síst gagnvart Íslandi, og gert kröfur til Íslendinga sem að mínu mati standast ekki rök. Þeir hafa gengið hart fram í þessum kröfum. Þetta varðar t.d. fiskveiðideilur eins og menn þekkja vel en nú er spurningin hvort Norðmenn séu að hverfa á vissan hátt frá því samkomulagi og samstarfi sem ákveðið var 1980, að draga sig út úr þessu samstarfi til að veikja fótfestu Íslands á norðurslóðum, ekki hvað síst á sviði olíu- og gasvinnslu, en styrkja um leið eigin stöðu. Á sama tíma og Norðmenn draga sig út úr þessu verkefni eru þeir að stórauka framlög til leitar og vinnslu á öðrum stöðum innan sinnar lögsögu og sjá fyrir sér að sú vinna haldi áfram núna ár eftir ár og að þeir muni auka verulega olíuvinnsluna annars staðar.

Er hætta á því að Norðmenn hugsi sér að frysta Íslendinga úti, ef svo má segja, varðandi aðkomuna að olíu- og gasmálum og koma í veg fyrir að Íslendingar nái þarna aukinni fótfestu? Þetta er a.m.k. nokkuð sem ríkisstjórn sem vildi gæta hagsmuna Íslands á norðurslóðum, vildi gæta hagsmuna Íslands hvað varðar landgrunnið, landhelgina og rétt okkar þegar Jan Mayen er annars vegar, hlyti að velta fyrir sér og bregðast við.

En hver hafa viðbrögð ríkisstjórnarinnar verið? Þau hafa engin verið, mér vitanlega, ekki einu sinni fyrirspurn, a.m.k. hafa ekki fengist svör við því hvort yfir höfuð hafi verið send fyrirspurn til Norðmanna um þessa breyttu afstöðu þeirra. Þegar um svona mikla hagsmuni er að ræða er auðvitað óásættanlegt að við séum með ríkisstjórn sem treystir sér ekki til að a.m.k. spyrjast fyrir um málið, ég tala nú ekki um að ganga eins langt og eðlilegt er við að verja grundvallarhagsmuni þjóðarinnar, eins og gert var þegar menn voru að ná samningum sem þetta mál tengist vissulega því að það snýst um þá punkta sem við ætlum að nota til viðmiðunar. Þeir punktar og þær viðmiðanir sem samdist um byggðu á ákveðnu samstarfi sem við hljótum að velta fyrir okkur hvort sé að renna út í sandinn og hvort við eigum þá að minna á rétt okkar til stærri landhelgi og stærra landgrunns.

Ég ítreka að lokum, virðulegur forseti, að vitaskuld væri rétt að ráðast í leiðréttingu á þessum punktum svoleiðis að þeir séu í samræmi við það sem lagt var upp með, en um leið gefur þetta mál okkur tilefni og tækifæri til að velta fyrir okkur hvort við séum sáttir við punktana eins og þeir munu standa eftir þessa leiðréttingu, hvort við teljum það hina réttu niðurstöðu, niðurstöðu sem við getum sætt okkur við, algjörlega óháð því hvernig samstarfsþjóðir okkar ganga fram við hagsmunagæslu og það að verja sína landhelgi, sitt landgrunn eða jafnvel að ásælast það sem getur talist náttúrulegur hluti af landgrunni Íslands.