148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

landhelgi, aðlægt belti, efnahagslögsaga og landgrunn.

418. mál
[17:50]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni kærlega fyrir ræðuna, bæði fyrir að vekja athygli á málinu til að reyna að tryggja að við förum ekki sofandi inn í framtíðina og ekki síður fyrir að halda á lofti nafni þess góða manns, Eyjólfs Konráðs Jónssonar heitins. Það snertir mig, ég var fjölskylduvinur og vil bara þakka kærlega fyrir. Eyjólfur var sem þingmaður alveg stórmerkilegur. Hans framlag þegar kemur að Jan Mayen og hvernig hann hélt á lofti réttindum okkar eins og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fór yfir áðan er magnað, en hann benti líka á önnur atriði, t.d. Rockall, og ég held að hann hafi meira að segja verið kominn fast að ströndum Skotlands með landhelgina og síðan Reykjaneshrygginn í heild sinni.

Ég er bara að velta fyrir mér, hæstv. forseti, hvort þingmaðurinn hafi velt því fyrir sér hvort tilefni sé líka til þess að taka upp þessa umræðu um Rockall og Reykjaneshrygginn? Höfum við vakað nægilega yfir hagsmunum okkar eða erum við svipað sofandi og hv. þingmaður virðist vera sannfærður um að við séum þegar kemur að Jan Mayen?