148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

landhelgi, aðlægt belti, efnahagslögsaga og landgrunn.

418. mál
[17:54]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er að velta því fyrir mér hvort það sé lýsandi fyrir velmegun okkar að við skulum bara vera sex þingmenn, og sjö með hæstv. forseta, þegar við ræðum hér um landhelgi og efnahagslögsögu. Fyrir 15–20, ég tala nú ekki um 30–40 árum, hefði ekki einn einasti þingmaður látið sig vanta í salinn til að taka þátt í þeirri umræðu. Við erum að fjalla um gríðarlega mikilvæga hagsmuni og þess vegna vil ég bara lýsa yfir sérstakri ánægju með að hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafi vakið mig og vonandi fleiri þingmenn sem eru í þessum sal.

Ég hygg að við eigum ekki aðeins að vera vakandi þegar kemur að Jan Mayen, við eigum að gæta hagsmuna okkar eins og Eyjólfur Konráð Jónsson reyndi að gera, og gerði og náði árangri, ekki eins miklum og hann vildi, það veit ég, sérstaklega ekki í Rockall-málinu. Hann náði a.m.k. ekki að ströndum Skotlands en kannski gætum við gert það sameiginlega, hv. þingmaður?