148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

landhelgi, aðlægt belti, efnahagslögsaga og landgrunn.

418. mál
[17:56]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er til í þann slag með hv. þingmanni. Ég held að hann hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann talaði um værukærð. Það er nefnilega ein af stóru hættunum sem samfélag okkar og reyndar mörg önnur samfélög nútímans standa frammi fyrir, að fara að líta á hlutina sem gefna. Þegar hlutirnir hafa gengið þokkalega í einhvern tíma fara menn að ímynda sér að þetta gerist allt af sjálfu sér. En það er ekki svoleiðis, allir þeir hagsmunir sem við höfum náð að verja hafa kostað blóð, svita og tár. Öll sú velmegun sem þjóðin þó býr við, þótt við viljum áfram gera betur á mörgum sviðum, er tilkomin vegna þrotlausrar vinnu, ekki bara í mörg ár eða áratugi, heldur um árhundruð. Hún er afleiðing af miklu starfi, afleiðing af sögu og menningu þessarar þjóðar og þeim einbeitta vilja Íslendinga á árum áður að vilja stjórna sér sjálfir, vilja vera fullvalda ríki. Stór hluti af því að vera fullvalda ríki er að hafa yfirráð yfir auðlindum sínum og landsvæði.

Ef við ætlum að verja hér lífskjör til framtíðar, gæta komandi kynslóða og verja stöðu þeirra þurfum við, þær kynslóðir sem nú eru uppi, að líta til baráttu þeirra sem komu á undan okkur og taka mið af henni, læra af henni og láta hana verða okkur hvatning til að verja íslenska hagsmuni út í ystu æsar. Eins og ég nefndi áðan getum við alveg gengið út frá því sem vísu að nágrannar okkar munu gera það og þess vegna verðum við til mótvægis að verja okkar hagsmuni, ekki til að ásælast það sem er réttur annarra, heldur til að tryggja rétt okkar.