148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

Viðlagatrygging Íslands.

388. mál
[17:58]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögum á þskj. 928, nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Viðlagatryggingu Íslands, nr. 55/1992, með síðari breytingum.

Eins og kemur fram í nefndarálitinu fjallaði nefndin um málið og fékk ýmsa á sinn fund. Ég hygg að mér sé óhætt að fullyrða að í fyrsta skipti hafi efnahags- og viðskiptanefnd fengið jarðfræðing á sinn fund og höfðum við gott af.

Frumvarpið lýtur í fyrsta lagi að nafnbreytingu og breyttri hugtakanotkun þannig að heiti stofnunarinnar Viðlagatrygging Íslands verði Náttúruhamfaratrygging Íslands og að í stað viðlagatrygginga verði rætt um náttúruhamfaratryggingar. Í öðru lagi er lagt til að ákvæði um skoðunarmenn ársreikninga falli brott þar sem þau úreltust með gildistöku laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga.

Í þriðja lagi er lagt til að lögfest verði að hamfarir sem rekja megi til ásetnings eða stórkostlegs gáleysis séu ekki bótaskyldar náttúruhamfarir í skilningi laganna. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að með þessu sé lögfest núverandi framkvæmd og í athugasemdum um 4. gr. frumvarpsins kemur m.a. fram að ákvæðið eigi t.d. við jarðskjálfta sem er bein afleiðing niðurdælingar vatns við nýtingu jarðhita.

Í innsendum erindum og á fundi með sérfræðingi á sviði jarðvísinda var nefndinni bent á að tengsl jarðvarmavinnslu og raunverulegra jarðskjálfta væru flóknari en svo að ljóst lægi fyrir hvort eða hvenær tiltekinn jarðskjálfti væri bein afleiðing tiltekinnar framkvæmdar. Líklega væri ógerningur að sanna beint orsakasamhengi auk þess sem þekkt væri að upp- eða niðurdæling vatns á jarðhitasvæði gæti fært skjálfta til í tíma, þ.e. annaðhvort flýtt fyrir eða seinkað. Þá væru orkufyrirtæki oft skyldug til að dæla niður vatni. Óvarlegt væri af þessum sökum að lögfesta ákvæðið í 4. gr. frumvarpsins ásamt lögskýringunni í greinargerð þess.

Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og leggur til að 4. gr. frumvarpsins falli brott. Hvetur nefndin til að fram fari samráð á milli framkvæmdarvalds og hagsmunaaðila um mörk bótaábyrgðar náttúruhamfaratryggingar.

Í fjórða lagi eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á 10. gr. laganna sem varðar eigin áhættu þannig að hlutfallstala eigin áhættu lækki en lágmarksfjárhæðir eigin áhættu hækki. Er markmiðið með breytingunni að nýta betur fjármuni vátryggingarinnar þannig að tjónþolar meiri háttar tjóna fái hærri bætur en verið hefur og að smávægileg tjón njóti að sama skapi ekki verndar.

Í fimmta lagi er með 13. gr. frumvarpsins lögfest sú kvöð á vátryggingarbætur samkvæmt lögunum að þeim skuli varið til að gera við eða endurbyggja húseign sem orðið hefur fyrir tjóni vegna náttúruhamfara, með ákveðnum undantekningum sem lýst er í greininni.

Í sjötta lagi er í frumvarpinu lagt til að kæruferli vegna ákvarðana Náttúruhamfaratryggingar Íslands verði einfaldað þannig að ekki verði lengur kveðið á um það í lögum að stjórn stofnunarinnar taki afstöðu til ágreinings um greiðsluskyldu heldur geti tjónþoli kært ákvörðun beint til úrskurðarnefndar náttúruhamfaratryggingar.

Í umfjöllun nefndarinnar var meðal annars rætt um hvort rétt væri að taka upp miðlæga skráningu yfir tjón á fasteignum sem bætt hefðu verið með náttúruhamfaratryggingu þannig að kaupendur fasteigna hefðu tækifæri til að kanna hvort fasteign hefði orðið fyrir slíku tjóni og hvort staðið hefði verið að viðgerðum eða endurbótum með viðunandi hætti. Nefndin telur að til bóta gæti verið að slík miðlæg skráning væri fyrir hendi og telur vert að kannaðir verði kostir og gallar þess að hún verði tekin upp, sem og með hvaða hætti best færi á þeirri upptöku.

Á fundi með nefndinni og í minnisblaði sem nefndin fékk sent leggur Fjármálaeftirlitið til að við frumvarpið bætist ákvæði um að Náttúruhamfaratrygging Íslands skuli hafa skilvirkt kerfi áhættustýringar og tryggja að nægir fjármunir séu til staðar til að standa straum af mögulegum bótakröfum, svo og um heimild fyrir ráðherra til að kveða nánar á um kröfur til áhættustýringar, fjárhagsgrundvöll og gjaldþol stofnunarinnar í reglugerð. Að höfðu samráði við ráðuneytið og Viðlagatryggingu Íslands tekur nefndin undir tillögu Fjármálaeftirlitsins og leggur til viðeigandi breytingu á frumvarpinu. Breytingar sem nefndin leggur til fylgja þessu nefndaráliti og ætla ég ekki frekar að vitna í þær.

Undir þetta nefndarálit rita sá er hér stendur, Óli Björn Kárason, Birgir Þórarinsson, Bryndís Haraldsdóttir — Brynjar Níelsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda — Helgi Hrafn Gunnarsson, Oddný G. Harðardóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Þorsteinn Víglundsson og Þórunn Egilsdóttir. Ólafur Ísleifsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.