148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

brottfall laga um Lífeyrissjóð bænda.

424. mál
[18:12]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar eftir umfjöllun um frumvarp til laga um brottfall laga um Lífeyrissjóð bænda, nr. 12/1999, með síðari breytingum. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Önnu Valbjörgu Ólafsdóttur og Harald Steinþórsson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Sigurð Eyþórsson og Sindra Sigurgeirsson frá Bændasamtökunum og Ólaf K. Ólafsson og Borghildi Jónsdóttur frá Lífeyrissjóði bænda. Nefndinni bárust erindi um málið frá Bændasamtökum Íslands, Lífeyrissjóði bænda, Landssamtökum lífeyrissjóða, Fjármálaeftirlitinu og fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Með frumvarpinu er lagt til að lög um Lífeyrissjóð bænda, nr. 12/1999, falli úr gildi og að sjóðurinn starfi framvegis á grundvelli laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, og samþykkta sem verði lagaðar að ákvæðum þeirra laga. Ríkissjóður greiði þó útgjöld vegna lífeyrisgreiðslna sem falla á sjóðinn vegna áunninna réttinda sjóðfélaga sem fæddir eru 1914 eða fyrr eða maka þeirra.

Í 1. mgr. 6. gr. laga um Lífeyrissjóð bænda er mælt fyrir um rétt eftirlifandi maka sjóðfélaga sem orðinn var félagi að sjóðnum fyrir árslok 1983 til makalífeyris til æviloka hafi sjóðfélaginn ekki skipt réttindum sínum með maka sínum í lok árs 1983. Slíkur réttur miðist þó einungis við áunnin réttindi í sjóðnum í árslok 1983 án framreiknings. Stjórn lífeyrissjóðs bænda hefur lýst áhyggjum af því að brottfall ákvæðisins gæti skert rétt viðkomandi til makalífeyris. Í ákvæðinu fælist sértæk útgreiðsla lífeyris, umfram hefðbundinn lífeyri sem viðkomandi hefði áunnið sér, sem ávallt þyrfti að hafa lagastoð og ekki dygði því að mæla fyrir um réttinn í samþykktum.

Nefndin leitaði viðbragða fjármála- og efnahagsráðuneytis við athugasemdum lífeyrissjóðsins og var mat ráðuneytisins að ákvæðið kvæði á um áunnin réttindi sem yrðu ekki tekin af sjóðfélögum þrátt fyrir brottfall laganna. Lög nr. 129/1997 veittu lágmarksréttindi en í samþykktum lífeyrissjóða mætti veita sjóðfélögum betri réttindi. Í minnisblaði ráðuneytisins til nefndarinnar er einnig bent á að samkvæmt 28. gr. laga nr. 129/1997 skuli stjórn lífeyrissjóðs tilkynna fjármála- og efnahagsráðherra um allar breytingar á samþykktum lífeyrissjóðs. Breytingarnar öðlist ekki gildi fyrr en ráðherra hafi staðfest að þær fullnægi ákvæðum laga og ákvæðum gildandi samþykkta fyrir lífeyrissjóðinn að fenginni umsögn Fjármálaeftirlitsins. Þá segir einnig:

„Til að taka af allan vafa staðfestist að ráðuneytið telur ekki heimilt að íslenskum lögum að fallast á neinar þær breytingar á samþykktum Lífeyrissjóðs bænda sem fela í sér afnám þeirra réttinda sem hér um ræðir og þar með skerðingu á réttindum eins hóps rétthafa umfram aðra. Sá hópur sem fellur undir réttindi 6. gr. laga um lífeyrissjóðinn mun því standa jafn rétthár eftir brottfall laganna og nú enda eru réttindin áfram tryggð í samþykktum sjóðsins og ekki eru forsendur til að fallast á meiri skerðingu á réttindum þessa hóps en annarra sjóðfélaga Lífeyrissjóðs bænda.“

Lífeyrissjóður bænda óskaði eftir afstöðu Fjármálaeftirlitsins til þess hvort í setningu 4. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1984, um lífeyrissjóð bænda, þar sem kveðið var á um ævilöng lífeyrisréttindi maka hefði falist brot á rétti þeirra sem greitt höfðu í Lífeyrissjóð bænda með því að auka skuldbindingar sjóðsins til tiltekins hóps án þess að til hefði komið fjárframlag í sjóðinn. Jafnframt óskaði sjóðurinn eftir afstöðu stofnunarinnar til þess hvort lífeyrissjóðnum yrði heimilt, án lagastoðar, að greiða makalífeyri sem nú er kveðið á um í 6. gr. laga um lífeyrissjóðinn. Í svari Fjármálaeftirlitsins sem nefndin fékk afrit af kemur fram sú afstaða stofnunarinnar að ákvæði um ævilangan makalífeyri sneru eingöngu að áunnum réttindum sjóðfélaga og maka þeirra og að stofnuninni virtist því að um misskilning af hálfu Lífeyrissjóðs bænda væri að ræða. Einnig teldi stofnunin að Lífeyrissjóði bænda væri heimilt að greiða umræddan makalífeyri án lagastoðar.

Lífeyrissjóði bænda var komið á fót með lögum um Lífeyrissjóð bænda, nr. 101/1970. Í 11. gr. laganna var mælt fyrir um ótímabundinn rétt eftirlifandi maka sjóðfélaga til lífeyris að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Í athugasemdum við ákvæðið kom fram að það miðaði að því að veita betri tryggingu eftir skamman iðgjaldaagreiðslutíma í þeim tilvikum þegar ætla mætti að framfærslueyris væri veruleg þörf.

Lög nr. 101/1970 voru felld úr gildi með nýjum lögum um Lífeyrissjóð bænda, nr. 50/1984, í byrjun árs 1984. Rétturinn til makalífeyris var að meginreglu til styttur í þrjú ár eftir andlát sjóðfélaga samkvæmt 11. gr. nýju laganna. Í athugasemdum við ákvæðið sagði:

„Á það skal bent að með þessum breytingum er ekki ætlað að hrófla við þegar áunnum réttindum samkvæmt gildandi lögum. Er í 26. gr. gert ráð fyrir að slíkur þegar áunninn réttur verði geymdur án framreiknings.“

Í 4. mgr. 26. gr. sagði að félli sjóðfélagi frá eftir árslok 1983 héldist réttur til makalífeyris samkvæmt 11. gr. laga nr. 101/1970 vegna stiga sem áunnin hefðu verið til ársloka 1983 að því leyti sem hann væri betri en réttur samkvæmt nýju lögunum. Slíkur réttur skyldi þó einungis miðast við áunnin stig án framreiknings. Rétturinn skyldi falla niður ef sjóðfélagar nýttu heimild 5. mgr. greinarinnar til að skipta áunnum réttindum með maka sínum. Í athugasemdum við 26. gr. frumvarps til laganna sagði:

„Í þessari grein er safnað saman ýmsum ákvæðum er varða tengsl ákvæða frumvarpsins við núgildandi lög sjóðsins og réttindi áunnin samkvæmt þeim.“

Mælt var fyrir um hliðstæð réttindi í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 12/1999 við setningu þeirra. Í athugasemdum við ákvæðið sagði:

„Í 2. mgr. er ákvæði sem er fjallað um í 4. og 5. mgr. 26. gr. gildandi laga. Við gildistöku þeirra var sjóðfélögum gefinn kostur á að skipta þeim réttindum sem þeir höfðu áunnið sér í árslok 1983 með maka sínum. Ef það var ekki gert var eftirlifandi mökum tryggður réttur til makalífeyris ævilangt út á áunnin réttindi sjóðfélagans í árslok 1983 án framreiknings.“

Ákvæðið var fært í 1. mgr. 6. gr. laganna með lögum nr. 78/2006, um breytingu á lögum nr. 12/1999.

Nefndin telur ljóst af forsögu ákvæðisins að litið hafi verið á svo á að það fjalli um rétt til makalífeyris sem sjóðfélagar hafi áunnið sér í tíð laga nr. 101/1970. Áunnin lífeyrisréttindi njóta verndar eignarréttarákvæðis 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, laga nr. 33/1944, samanber t.d. dóm Hæstaréttar Íslands frá 17. mars 2016 í máli nr. 529/2015. Að mati nefndarinnar verður sá réttur sem 1. mgr. 6. gr. laga nr. 12/1999, þeirra sem hér er lagt til að verði felld brott, fjallar um því ekki felldur niður með brottfalli laga nr. 12/1999. Þvert á móti beri Lífeyrissjóði bænda skylda til að tryggja réttinn áfram, líkt og nú er gert í gr. 13.6 í samþykktum fyrir sjóðinn frá 8. júní 2012.

Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Hv. þingmenn Þórunn Egilsdóttir og Birgir Þórarinsson skrifa undir nefndarálit þetta með fyrirvara um að réttur eftirlifandi maka sjóðfélaga sem orðnir voru félagar að sjóðnum fyrir árslok 1983 til makalífeyris til æviloka sé fyllilega tryggður. Ólafur Ísleifsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu og tekur undir fyrirvara Þórunnar Egilsdóttur og Birgis Þórarinssonar. Brynjar Níelsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins, en skrifar undir álitið samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda.

Undir álit þetta rita framsögumaður, sá sem hér stendur, Helgi Hrafn Gunnarsson, hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Óli Björn Kárason, og hv. þingmenn Bryndís Haraldsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Brynjar Níelsson, Þorsteinn Víglundsson, Oddný G. Harðardóttir og, með fyrirvara, sem fyrr segir, Birgir Þórarinsson og Þórunn Egilsdóttir.