148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

brottfall laga um Lífeyrissjóð bænda.

424. mál
[18:22]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að fara í gegnum þetta nefndarálit með okkur. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í þennan fyrirvara sem tveir hv. þingmenn gera við nefndarálitið, þ.e. Þórunn Egilsdóttir og Birgir Þórarinsson, sem skrifa undir það með fyrirvara um að réttur eftirlifandi maka sjóðfélaga sé fyllilega tryggður miðað við dagsetningu sem þarna er nefnd. Nú geri ég ráð fyrir að fram hafi farið ítarleg umræða í nefndinni um þennan þátt málsins. Í raun kem ég eingöngu hingað upp til að heyra skoðun og álit hv. þingmanns og hans mat á því hvort þessi þáttur þessa máls sé fyllilega tryggður. Auðvitað er rætt um þetta í nefndarálitinu. Ég sá það þegar ég las það yfir hér fyrr í dag. En ég er ekki klár á því hvort þetta er nógu skýrt. Mér þætti því vænt um ef þingmaðurinn gæti farið yfir þann kafla í nefndaráliti þar sem hann segir að þetta sé nægilega skýrt þannig að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að þessi réttindi séu tryggð.