148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

brottfall laga um Lífeyrissjóð bænda.

424. mál
[18:30]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Það er ekki að ástæðulausu að sérlög gildi um lífeyri bænda. Starf bænda, staða þeirra, er á margan hátt mjög sérstök. Það er hins vegar alveg eðlilegt og eiginlega nauðsynlegt að mínu mati að bera saman kjör bænda og þær aðstæður sem þeir búa við við kjör og aðstæður annarra stétta. Það er sérstaklega aðkallandi núna vegna þess að við sjáum að flestallar stéttir landsins hafa fengið umtalsverðar kjarabætur og gera ráð fyrir að sækja enn meiri kjarabætur núna á næstu misserum. Það er aðeins ein stétt sem er sérstaklega gert ráð fyrir að muni búa við lakari kjör ár eftir ár fram til ársins 2023, en það er lokaár fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar.

Fjármálaáætlun núverandi ríkisstjórnar gerir ráð fyrir að framlög til bænda og þar með kjör þeirra rýrni ár frá ári á meðan aðrar stéttir búa við — og munu vonandi búa áfram við — batnandi kjör. Það er því ekki að ástæðulausu að menn á sínum tíma, þegar þeir komu á lífeyrissjóði bænda, töldu ástæðu til að líta sérstaklega til stöðu bænda. Mikilvægt er samhliða þessu frumvarpi og umræðu um það að við gleymum ekki að líta til þess sem er öðruvísi í stöðu bænda sem stéttar hvað kjör þeirra varðar, hvort sem það varðar lífeyri eða önnur kjör, en hjá öðrum stéttum. Því að auðvitað er þetta fyllilega samanburðarhæft þótt bændur hafi ekki sömu stöðu til þess að verja og sækja kjarabætur eins og aðrar stéttir.

Við hvað eru bændur að vinna og hafa gert í meira en 1100 ár á Íslandi? Þeir eru að sinna einu mikilvægasta hlutverki samfélagsins, þ.e. því að búa til mat, búa til fæðu, halda okkur Íslendingum lifandi. Ríkið semur við bændur um að þeir taki að sér þetta hlutverk. Rétt eins og ríkið semur við hinar ýmsu stéttir um að þær leysi hin ýmsu mikilvægu hlutverk sem sinna þarf í samfélaginu; hjúkrunarfræðingar, kennarar, læknar, embættismenn og svo mætti lengi telja, þá semur ríkið við bændur um að þeir gegni þessu mikilvæga hlutverki og framleiði fyrir okkur mat. Því meira sem við framleiðum af íslenskum mat og neytum íslenskrar fæðu á kostnað innfluttrar, þeim mun betra er það fyrir samfélagið. Það sparar okkur tugi milljarða á ári í gjaldeyri og hefur auk þess ýmsar aðrar jákvæðar og mjög mikilvægar afleiðingar í för með sér fyrir samfélagið sem ég ætla að rekja hér aðeins á eftir.

Ég vek athygli virðulegs forseta á því að ástæðan fyrir því að ég ætla í stuttu máli að fara yfir mikilvægi íslensks landbúnaðar er sú að ég vil draga fram hvers vegna það er nauðsynlegt að líta sérstaklega til kjara bænda og hvernig þau mótast, hvort sem við erum að tala um lífeyrisréttindi eða önnur kjör.

Til viðbótar við það að sjá okkur fyrir mat og spara gjaldeyri þá tryggja bændur okkur aðgang að heilnæmum, góðum, hreinum vörum. Nefna má hluti eins og notkun sýklalyfja sem er hverfandi á Íslandi, mjög lítil í samanburði við önnur lönd og í flestum tilvikum eru sýklalyf ekki notuð í íslenskum landbúnaði. Menn reyna eftir fremsta megni að forðast það á meðan víða annars staðar þar sem landbúnaður er rekinn með öðrum hætti, en í samkeppni við íslenskan landbúnað og í vaxandi samkeppni við íslenskan landbúnað eins og horfurnar eru núna, virðulegi forseti, með þessa ríkisstjórn sem virðist algjörlega hafa gleymt mikilvægi íslensks landbúnaðar, er notast við sýklalyf sums staðar nánast sem reglu. Og ekki bara það. Víða eru notaðir sterar og ýmis annars konar lyf og dýr eru fóðruð á fóðri sem er þeim ekki náttúrulegt og hefur oft í för með sér ýmsa kvilla. Allt þetta erum við að langmestu laus við á Íslandi.

Verðmætin sem í þessu eru fólgin verða vart metin til fjár. Þetta eru samt mjög raunveruleg verðmæti og þung lóð á þá vogarskál sem ég nefndi áðan, þ.e. mikilvægi þess að við viðhöldum íslenskum landbúnaði og gerum bændum kleift að starfa á Íslandi og njóta bærilegra kjara. Því að ef áfram verður vegið að kjörum bænda hér á landi mun þeim einfaldlega fækka og kostir greinarinnar munu minnka.

Einhverjir kunna að segja: Er ekki allt í lagi að bændum fækki og við stækkum bara búin og framleiðum jafn mikið eða meira? Þá vek ég athygli virðulegs forseta á því að bændur og fjölskyldur þeirra, búin, íslensku fjölskyldubúin, einingarnar sem hafa séð um matvælaframleiðslu á Íslandi frá upphafi, gegna ýmsu hlutverki öðru en bara því að framleiða matvælin og gegna gríðarlega mikilvægu samfélagslegu hlutverki hringinn í kringum landið, eiga hvað stærstan þátt í því að landið er enn að mestu leyti í byggð. Því víða byggja samfélög í dreifbýlinu á því að þar sé fólk til staðar og stundi búrekstur. Bændur, m.a. kjara sinna vegna, hafa sinnt ýmsum störfum öðrum samhliða búskapnum, keyrt börn í skólann, tekið að sér verktakavinnu og ýmislegt fleira sem er nauðsynlegt til að viðhalda samfélögum.

Það er meira sem ástæða er til að nefna varðandi mikilvægi bænda í samfélögunum. Það snýst einfaldlega um að ef bændur væru ekki búnir að halda landinu í byggð þá hefði ekki sprottið upp ýmis önnur atvinnustarfsemi sem hefði verið illmögulegt nema vegna þess að landið var allt byggt. Ég nefni sem dæmi stærstu útflutningsgrein landsins, ferðaþjónustuna. Ætli mætti gera ráð fyrir því að tekist hefði að byggja upp ferðaþjónustu um allt land eins hratt og vel og þó hefur verið gert ef ekki væri fyrir allar þessar byggðir landsins og samgöngurnar sem tengja þær o.s.frv.?

Ég nefni bara þessi fáu dæmi til að draga það fram að hlutverk bænda í samfélaginu er fjölþætt og gríðarlega verðmætt og mikilvægt. Það er þar af leiðandi eðlilegt og sjálfsögð krafa að menn tryggi það að þessi mikilvæga stétt, undirstöðustétt í samfélaginu, njóti kjara sem eru sambærileg við aðrar stéttir.

Ég mun væntanlega í seinni ræðu um málið fjalla nánar um mikilvægi landbúnaðarins en einnig um stöðu hans nú, akkúrat nú, og hættuna sem stafar af stefnu núverandi ríkisstjórnar ekki hvað síst gagnvart landbúnaðinum og velta fyrir mér hvernig við getum brugðist við því til að tryggja það að við viðhöldum hér öflugum íslenskum landbúnaði. Þar eru auðvitað, eins og þetta mál kemur inn á, kjör bænda, bæði á meðan þeir vinna og eftir að starfsaldri er lokið, grundvallaratriði.