148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

brottfall laga um Lífeyrissjóð bænda.

424. mál
[18:39]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Með þessu frumvarpi er lagt til að lög um Lífeyrissjóð bænda, nr. 12/1999, falli úr gildi og að sjóðurinn starfi framvegis á grundvelli laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, og samþykkta sem verði lagðar á með ákvæðum þeirra laga. Ríkissjóður greiðir þó áfram útgjöld vegna lífeyrisgreiðslna sem falla á sjóðinn vegna áunninna réttinda sjóðfélaga sem fæddir eru 1914 eða fyrr eða maka þeirra, eins og rakið hefur verið og kemur fram í nefndarálitinu.

Í 1. mgr. 6. gr. laga um Lífeyrissjóð bænda er mælt fyrir um réttindi eftirlifandi maka sjóðfélaga sem orðinn var félagi að sjóðnum fyrir árslok 1983 til makalífeyris til æviloka hafi sjóðfélaginn ekki skipt réttindum sínum með maka sínum í lok árs 1983. Slíkur réttur miðist þó einungis við áunnin réttindi í sjóðnum í árslok 1983 án framreiknings. Stjórn Lífeyrissjóðs bænda hefur lýst áhyggjum af því að brottfall ákvæðisins gæti skert rétt viðkomandi til makalífeyris.

Herra forseti. Stjórn Kvenréttindafélags Íslands tekur undir áhyggjur Lífeyrissjóðs bænda, að með því að fella niður 6. gr. núgildandi laga um Lífeyrissjóð bænda séu réttindi maka bænda skert sem í flestum tilfellum eru konur sem fengu ekki að greiða sjálfar í sjóðinn fyrir árið 1984. Stjórn Kvenréttindafélags Íslands lýsir yfir andstöðu sinni við slíka skerðingu á réttindum kvenna í bændastétt.

Skoðanamunur hefur verið milli stjórnar Lífeyrissjóðs bænda og fjármála- og efnahagsráðuneytisins um það hvernig skuli fara með núverandi 6. gr. í lögum um Lífeyrissjóð bænda um ævilangan makalífeyri til eftirlifandi maka sem hvorki hafi öðlast slík réttindi fyrir eigin réttindaávinnslu né fyrir framsal á réttindum hins látna maka verði af brottfalli laganna, annars vegar hvort nauðsynlegt sé að sjóðurinn hafi lagastoð til að greiða slíkan makalífeyri og hins vegar hvort Alþingi hafi brotið á eignarréttindum þeirra sem greitt hafa í sjóðinn og eiga þar réttindi, með því að setja slíka skuldbindingu á sjóðinn án þess að komið hafi til framlag úr ríkissjóði í sjóðinn.

Í 6. gr. laga nr. 12/1999, um Lífeyrissjóð bænda, er kveðið á um sértæka útgreiðslu lífeyris umfram hefðbundinn lífeyri sem viðkomandi hefur áunnið sér, ævilangan makalífeyri til eftirlifandi maka sem ekki hafi sjálfir öðlast réttindi til útgreiðslu úr sjóðnum, hvorki fyrir eigin réttindaávinnslu né fyrir framsal á réttindum hins látna maka. Falli bóndi frá sem aflaði sér réttinda á árunum 1971–1983 þegar makar þeirra höfðu ekki heimild samkvæmt lögum til að greiða í sjóðinn á maki hans rétt á venjulegum makalífeyri út á öll réttindi bóndans í tvö ár eins og hefðbundið er. Eftir þann tíma á makinn rétt á ævilöngum lífeyri út á helming þeirra réttinda sem bóndinn aflaði á árunum 1971–1983 hafi réttindum ekki verið skipt áður á milli hjóna.

Í umsögn Lífeyrissjóðs bænda kemur fram það mat sjóðsins að sjóðnum væri beinlínis óheimilt að setja einhver þannig óáunnin réttindi í samþykktir án lagastoðar og úthluta án lagastoðar réttindum út fyrir hóp greiðsluþega sem byggja rétt sinn á hefðbundinni réttindaávinnslu. Slík útgreiðsla hlýtur að skerða réttindi annarra sjóðfélaga með áunnin réttindi að tiltölu. Verði lögin felld úr gildi telur stjórn Lífeyrissjóðs bænda að lagastoð skorti fyrir umræddum útgreiðslum makalífeyris til æviloka og því sé nauðsynlegt að mæta þeim með samsvarandi fjárframlagi úr ríkissjóði.

Hér koma fram réttmætar áhyggjur Lífeyrissjóðs bænda og réttmætar áhyggjur bænda yfir höfuð, og vel skiljanlegar, herra forseti, vegna þess að í þessu þjóðfélagi er sótt að bændum. Það er fullkomlega eðlilegt að bændur treysti því ekki að þetta verði tryggt, treysti ekki ríkisvaldinu, vegna þess að það hefur sýnt sig í samskiptum við ríkisvaldið og að undanförnu að ekki er leitað samráðs við bændur í mikilvægum málum. Þar vil ég nefna tollasamning við Evrópusambandið sem tók gildi 1. maí sl. Sá samningur hefur veruleg áhrif á kjör bænda. Í honum er verið að heimila innflutning á landbúnaðarvörum, kjöti og ostum svo eitthvað sé nefnt, í það miklum mæli að það kemur til með að hafa veruleg áhrif á innlenda búvöruframleiðslu. Það er eðlilegt að bændur séu áhyggjufullir í því máli vegna þess að sem dæmi fær Evrópusambandið að flytja hingað til lands 610 tonn af ostum á sama tíma og íslenskir bændur fá að flytja 50 tonn til Evrópusambandsins. Allir sjá að þetta er mjög ójafn samningur og ég hef rakið það í ræðustól fyrr. Þegar verið er að semja um svo mikilvæg mál með alþjóðlegri samningatækni hafa samningsaðilar alltaf samráð við sína hagsmunaaðila. Í þessu tilfelli átti að sjálfsögðu íslenska samninganefndin að hafa samráð við samtök bænda á Íslandi í samningsgerðinni, en það var ekki gert nema í mjög takmörkuðum mæli. Ég hef heimildir fyrir því að sendinefndin á vegum Evrópusambandsins sem samdi fyrir hönd sambandsins við íslensk stjórnvöld var í stöðugu sambandi við sína hagsmunaaðila í Evrópusambandinu sem voru náttúrlega bændur, afurðastöðvar o.s.frv. Eins og ég segi er fullkomlega eðlilegt að bændur treysti ekki stjórnvöldum og hafi áhyggjur af þeim breytingum sem hér eru boðaðar á Lífeyrissjóði bænda.

Sá sem hér stendur sat fund hv. efnahags- og viðskiptanefndar þegar málið var afgreitt úr nefndinni og samþykkti það með þeim fyrirvara að það væri fulltryggt að þau réttindi sem nú eru sérstaklega skilgreind í lögum um Lífeyrissjóð bænda er varðar réttindi maka væru fulltryggð. Formaður nefndarinnar fullvissaði nefndarmenn um að þessi mikilvægu réttindi væru tryggð þó að lögin yrðu felld brott.

Herra forseti. Ég treysti því að svo verði.