148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[20:18]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er vilji til þess í þessum sal víða að við flytjum inn ódýrar landbúnaðarafurðir í því skyni að lækka vöruverð á Íslandi þótt ódýrar landbúnaðarafurðir erlendis hafi í sjálfu sér ekkert verið ódýrar á Íslandi þegar þær komu yfir búðarborðið. En spurningin er: Hvaða verði erum við að kaupa þetta lága verð?

Það vill þannig til að bæði í Asíu og Evrópu vitum við um dæmi þess að fólk sem vinnur við matvælaframleiðslu er í ánauð. Ég nefni kjúklingaframleiðslu í Taílandi en þar er grunur um að vinni þrælar frá Myanmar. Þetta ástand leitar meira að segja til Evrópu. Í fréttum í fyrrasumar kom til dæmis í ljós að rúmenskar konur, sem voru fluttar til Sikileyja til að vinna við grænmetisupptöku, voru misnotaðar kynferðislega. Þegar þeir sem stóðu fyrir misnotkuninni og notuðu þessar konur sem kynlífsþræla meðfram því að þær unnu við uppskeru voru spurðir hverju þetta sætti sögðu þeir: Ef við værum ekki með ódýrt vinnuafl hér að störfum gætum við ekki selt framleiðslu okkar.

Ég spyr því að ég vil út af fyrir sig að við veltum því fyrir okkur hvort við viljum ódýra framleiðslu á hvaða forsendum sem er. Viljum við til dæmis kaupa ódýrar landbúnaðarafurðir ef við vitum eða höfum grun um að á bak við það lága verð sé þrælahald, misnotkun? Viljum við það? Ég held ekki. Þess vegna ítreka ég þetta við hæstv. ráðherra, að það verði kannað eins vel og hægt er hvort í þeim löndum sem hér um ræðir sé hætta á einhverju slíku sem ég var að fara með hér áðan.