148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[20:21]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þær vörur sem hér er um að ræða, eru undanþegnar fríðindum, teljast hvað viðkvæmastar hagsmunum innlendra framleiðenda, landbúnaðarvörur, þ.e. óunnar og unnar kjötafurðir, mjólkurvörur og afskorin blóm — vernd þeirra verður ekki skert með þessu frumvarpi.

Almennt um þetta mál: Við erum auðvitað að taka þátt í alþjóðasamstarfi. Við trúum því og þekkjum það sjálf að frjáls viðskipti hjálpa fólki í vanþróuðum ríkjum. Okkar staða væri ekki með sama hætt ef við hefðum ekki frjáls viðskipti og aðgang að öðrum mörkuðum.

En ef hv. þingmaður þarf að spyrja þingheim eða mig hvort við viljum vörur sem framleiddar eru við ömurlegar aðstæður, þar sem verið er að beita konur og fólk viðbjóðslegu ofbeldi, held ég að svarið við því liggi í augum uppi. Ég veit ekki hvernig ég á að svara því öðruvísi en að við erum að mæla fyrir þessu máli hér vegna þess að þetta er partur af alþjóðasamstarfi og við trúum því að við séum að taka þannig þátt í því að það gagnist fólkinu sem þarna býr til þess að komast á betri stað í þeim löndum sem það byggir. Þess vegna erum við að leggja þetta fram.

Ég nefni það aftur að ef menn telja frekari upplýsingar vanta, sem ekki er að finna í greinargerð, ætti að óska eftir þeim í nefndinni.