148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[20:37]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni kærlega fyrir þessa ræðu. Við erum auðvitað að taka hér skref í þeirri von að það að opna íslenskan markað gefi þessum fátækustu þjóðum heims aukin tækifæri til að sækja fram, byggja upp innviðina, byggja upp infrastrúktúrinn, koma á alvörustjórnkerfi þar sem það vantar o.s.frv.

Við þekkjum það ágætlega í nútímasögunni hvernig einmitt spillt stjórnarfar og vitlaust stjórnarfar getur eyðilagt meira að segja velmegunarríki eins og t.d. Venesúela svo dæmi sé tekið. Við erum auðvitað að stíga skref, ég held að það sé skynsamlegt og heilbrigt, að veita þessum fátækustu þjóðum aðgang að íslenskum markaði. Það er miklu skynsamlegri leið en t.d. að veita beina þróunaraðstoð í peningum. Við höfum ekki sérstaklega góða reynslu af því. Af þessu er hins vegar miklu betri reynsla.

Ég held nefnilega að það skipti máli fyrir okkur að átta okkur á því að forsenda þess að þessar fátæku þjóðir nái að byggja upp efnahag sinn, nái að bæta lífskjörin, er aðgangur að erlendum mörkuðum. Alveg eins og það var forsenda fyrir okkur Íslendinga að fara úr því að vera fátækasta ríki Evrópu í eitt það auðugasta í heimi að við vorum með tryggan aðgang að erlendum mörkuðum, ekki síst fyrir sjávarafurðir. Ég vona að hv. þingmaður sé mér sammála í þessu.