148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[20:39]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil taka skýrt fram að ég er hlynntur þessu máli. Ég tel æskilegt að það nái fram að ganga því ég er sammála því mati hv. þm. Óla Björns Kárasonar að ef fátæk ríki eiga raunverulega að ná sér á strik og geta byggt sig upp þurfa þau að hafa aðgang að mörkuðum. Við þekkjum það mjög vel á Íslandi hversu miklu máli alþjóðaviðskipti skipta.

En það sem ég er að velta fyrir mér er hvort það sé með einhverjum hætti hægt að búa til sterkari hvata til þess að þetta mál nái tilætluðum árangri og jafnvel einhverjar hindranir til að koma í veg fyrir að þetta gefi tilefni eða tækifæri til að misnota þessi lönd meira en raun ber vitni, hvort sem það er af stjórnvöldum ríkjanna sjálfra eða einhverjum utanaðkomandi aðilum eða þess vegna innlendum glæpahópum eins og ég nefndi.

Það verður þó að viðurkennast að það væri býsna erfitt að vera með eftirlit með allri þeirri framleiðslu sem við ætluðum að flytja hingað til Íslands. En sér hv. þingmaður einhverja leið, og nú ætla ég að leyfa mér þó að hv. þingmaður sé í andsvari við mig að spyrja hann og vona að hann taki því vel, til þess a.m.k. í stóru myndinni að við getum haft einhverja jákvæða hvata hvað þetta varðar? Og hugsanlega að við gætum haft einhverjar hindranir til að koma í veg fyrir að jafnvel stór ríki sem eru að færa sig upp á skaftið kaupi upp nánast heilu löndin og noti þau sem miðstöð fyrir ódýra framleiðslu.

Þá vil ég geta þess sérstaklega, frú forseti — nei, ég verð að gera það í næsta svari.