148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[20:59]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Mig langar að lýsa sérstakri ánægju með þetta mál. Þetta er gríðarlega mikilvægt fyrir viðkomandi ríki. Hér erum við að tala um að veita 47 fátækustu ríkjum heims aukinn markaðsaðgang með framleiðsluvörur sínar að okkar mörkuðum. Það er í samræmi við skuldbindingar okkar gagnvart Alþjóðaviðskiptastofnuninni.

Það eru ákveðin vonbrigði út af fyrir sig að við undirgengumst þá skuldbindingu með yfirlýsingu þann 3. maí árið 2000; að það hefur tekið okkur 18 ár að hósta þessu máli upp. Við hefðum vissulega getað hreyft okkur hraðar í þeim efnum. Þetta skiptir nefnilega gríðarlega miklu máli. Þegar við horfum til þessara fátækustu ríkja heims og þeirra tækifæra sem þau hafa til að bæta sinn hag snýst það í mörgum tilfellum fyrst og fremst um framleiðslu og markaðssetningu landbúnaðarafurða. Ríki hins vestræna heims hafa sýnt mikinn tvískinnung í gegnum árin með því oftar en ekki að veita þróunaraðstoð til ríkja sem þessara í formi niðurgreiddra, jafnvel ókeypis, landbúnaðarafurða sem ganga síðan af matvælaframleiðslu viðkomandi lands nærri dauðri og skilja landið eftir verr statt þegar aðstoðinni lýkur. Það er í raun búið að keyra bændur viðkomandi ríkja í þrot, þeir geta ekki keppt við ríkidæmi niðurgreiddra landbúnaðarafurða frá ríkjum sem segjast þó vera að rétta hjálparhönd.

Það er mjög mikilvægt í þróunarsamvinnu okkar að við tryggjum að við hjálpum til við að byggja upp atvinnuvegi í viðkomandi ríkjum, hjálpum þeim til sjálfshjálpar í þeim efnum og tökum um leið þátt í að tryggja þeim markaðsaðgang með sínar vörur. Það er alveg rétt, sem hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson kemur inn á, að það eru mörg víti að varast í þessu. En það er líka mikilvægt að hafa í huga að við erum fyrst og fremst að reyna að skapa þessum ríkjum tækifæri til að byggja upp sinn efnahag. Það er ágætt fyrir okkur að hafa í huga í þeim efnum að við sjálf byggðum okkar efnahag upp með því að fá slíkt tækifæri, markaðsaðgang með okkar afurðir.

Þess vegna held ég að við eigum að líta á þetta jákvæðum augum þó svo að vissulega þurfi að horfa til þess hvaða ógnir geti stafað að þessum ríkjum. Við getum ekki stýrt þeirra heimamálum, ekki stýrt því hvernig þau hátta sinni auðlindastýringu, ekki stýrt því hvernig þau skilyrða sína erlendu fjárfestingu sem kann að vera að koma inn í þessar atvinnugreinar til að hagnýta mögulega gott markaðsaðgengi inn á stór markaðssvæði eins og í Evrópu. En ég held að allt sé að því eina í þeim efnum, þetta er fyrst og fremst ætlað til að skapa þessum sömu löndum tækifæri til efnahagslegs vaxtar og sjálfbærni þegar fram í sækir.

Það er margt sem við höfum sjálf lært af eigin reynslu. Það er ágætt að hafa í huga þegar við horfum til dæmis á auðlindanýtingu — við erum að reyna að tryggja að eigandi auðlindarinnar, þ.e. þjóðin, fái ásættanlegt gjald fyrir nýtingu þeirrar auðlindar, hver svo sem er að nýta þær, hvort sem það telst vera innlendur eða erlendur aðili — að það skiptir gríðarlega miklu máli að arðurinn skili sér. Það er þekking sem við getum miðlað til ríkja sem þessara. Við þekkjum jákvæða reynslu okkar af slíkri erlendri fjárfestingu inn í greinar eins og t.d. orkugeirann okkar. Okkur tókst einmitt að byrja að hagnýta orkuauðlindina okkar í krafti erlendrar fjárfestingar sem færði hér inn tækniþekkingu og fjármagn til þess að geta nýtt þær sömu auðlindir. Við hefðum tæpast getað fjármagnað Búrfellsvirkjun sjálf án aðkomu slíkrar fjárfestingar. Við stöndum hér fáeinum áratugum síðar uppi með mjög blómlegan orkuiðnað sem hefur vaxið í fjölmargar áttir aðrar en bara stóriðjuna sjálfa. Fjölmörg tæknifyrirtæki starfa til dæmis í kringum þessar greinar.

Ég held að það að opna fyrir markaðsaðgang, eins og hér er verið að gera, skipti gríðarlega miklu máli fyrir fátæk ríki sem þessi. Það skapar þeim tækifæri sem þau annars geta trauðla öðlast. Þess vegna er þetta mjög jákvætt mál og ég fagna því að það sé loksins komið fram.