148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[21:07]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið.

Þótt augljóst sé okkur öllum hér inni að Ísland er ekki þróunarríki á pari við þau 47 ríki sem hér um fjallar og falla undir þessa skilgreiningu samkvæmt nýjasta listanum langar mig að spyrja hv. þingmann sem þingmann Viðreisnar. Hann færði fram ágætisrök fyrir því hvers vegna ætti ekki að flytja niðurgreidda vöru inn til þessara ríkja og grafa þar með undan matvælaframleiðslu á heimasvæðinu. Því langar mig til að spyrja hv. þingmann: Horfir þetta öðruvísi við gagnvart íslenskri landbúnaðarframleiðslu? Það að flytja inn, innan gæsalappa dömpa niðurgreiddri, t.d. evrópskri landbúnaðar- eða matvælaframleiðslu á heimamarkaðinn á Íslandi, horfir það öðruvísi við eingöngu vegna þess að Ísland er ekki þróunarríki? Ég held að óumdeilt sé að kostnaðarstrúktúr landbúnaðarframleiðslu hér heima er allur annar en víða í Evrópu og niðurgreiðslurnar þar eins og við þekkjum víðast hvar enn meiri en hér þekkist. Þetta væri áhugavert innlegg þó að þetta snerti ekki beint tollfríðindi þeirra ríkja sem falla undir þessa Least Developed Countries skilgreiningu.