148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[21:10]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherra fyrir ágæta yfirferð í upphafi í framsögu sinni og vil fyrst að það komi fram að ég held að þetta sé hið besta mál og að margt gott geti áunnist með frjálsum viðskiptum. Þetta er auðvitað þegar upp er staðið eina raunverulega leið þessara vanþróuðu ríkja til að komast út úr þeirri örbirgð sem þær búa við.

Það sem mig langaði að koma inn á hérna og vekja athygli á er að á þessum lista, Least Developed Countries, LDC eins og þessi hópur þjóða er kallaður í greinargerð með frumvarpi þessu, eru núna 47 þjóðir. Ísland gerðist aðili að þessu í maí árið 2000 ef ég man rétt. Það sem vekur mestar áhyggjur hjá mér er að á þessum tíma hafa ekki nema fimm þjóðir komist undan því að falla undir þessar þrjár skilgreiningar fátæktar eða efnahagslegrar stöðu sem þarf að falla undir til að — eru það sex? Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson leiðréttir mig hér. Eins og einhver sagði: Ég hefði átt að gúgla betur. [Hlátur í þingsal.] Það þarf þá að falla undir sex skilgreiningar til að vera innan þess ramma. Það að eftir18 ár séu 47 þjóðir enn á þessum lista og ekki nema fimm — það ber þó að meta það að fimm þjóðir eru þó fimm þjóðir. Vill hv. þm. Björn Leví Gunnarsson leiðrétta mig aftur og segja að það séu sex þjóðir? Nú held ég að hann sé farinn að stríða mér.

Engu að síður gengur býsna hægt og með þessu áframhaldi mun það taka okkur árhundrað að lyfta þessum þjóðum úr þeirri örbirgð sem þær búa við. Vegna stjórnarfars og annars heimatilbúins vanda gætu á meðan nýjar þjóðir komið þarna inn. Ég held að það væri áhugavert að fara í gegnum það og þá á grundvelli þróunaraðstoðarnálgunarinnar að velta fyrir sér hvort ekki sé hægt að finna leiðir sem styðja annaðhvort við þessi auknu frjálsu viðskipti eða með einhverjum öðrum hætti hjálpa þessum þjóðum út úr þessu örbirgðarástandi, gera þær í framhaldinu að betri kúnnum í alheimsviðskiptunum og í framhaldinu stöðu og lífskjör íbúa þessara þjóða betri.

Það er ótrúlega stutt síðan Ísland hefði eflaust uppfyllt einhver, ef ekki öll, þessara skilyrða. Ég þekki ekki skilyrðin út í hörgul en eins og við þekkjum sem hér erum var Ísland meðal fátækari þjóða Evrópu, ef ekki sú fátækasta, fyrir ekki mjög löngu síðan. Það sýnir að með skynsamlegu stjórnarfari og opnum alþjóðlegum viðskiptum eiga fátækar þjóðir möguleika á að koma sér úr þeirri stöðu sem þær áður hafa verið í, núna í tilfelli þessara 47 þjóða.

Vissulega er þessi ákvörðun jákvætt skref í rétta átt. Ég vil eins og ég segi beina þeirri spurningu til ráðherra hvort fleira hafi komið til skoðunar í þessu samhengi. Þó að þessi samningur liggi fyrir eins og hann er gef ég mér að það séu fleiri hliðaraðgerðir sem verið er að horfa á í þessu samhengi því að öllum má vera ljóst að það að ná sex þjóðum út af þessum lista á 18 ára tímabili er hægur gangur, því miður. Fyrrverandi mektarþjóð eins og Venesúela sem var efnahagslega sterkt land fyrir ekki löngu síðan er nú í kjölfar heimatilbúinna vandræða vegna stjórnarfars komin á hálfgerða vonarvöl og því miður búin að vera einstefna þar um alllangt skeið.

Fleiri væri hægt að nefna þar sem háttalagið er þannig að drjúgar líkur eru á að viðkomandi þjóðir verði undir þessum viðmiðum og komi þar með nýjar inn á þennan lista. Það er mikið til þess vinnandi að fækka þessum þjóðum og reyna að fækka þeim tiltölulega hratt. Ég held að við á þingi ættum að líta til þeirra ráða sem líkleg eru til að virka. Plástrar til heimabrúks hjálpa ósköp lítið gagnvart raunverulegum vandamálum á þessum fjarsvæðum.

Ég held að við þurfum að fara að einbeita okkur að því að greina vandamálin og jafnvel líta þannig á, eins og er gert í þessu tilviki, með þessari rýmkun á tollasamningum, að aðstoða frekar á fjarsvæðinu, á heimasvæðinu, aðstoða fólk og eftir atvikum samfélög til að færast til betri vegar heima hjá sér í stað þess að vera með stuðninginn fókuseraðan hér, ef svo má segja, á nærsvæðið Ísland.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri í bili en vil bara ítreka það sem ég sagði áðan, þetta er gott skref en ég held að við ættum ásamt fleiri velmegandi þjóðum að horfa til þess hver hin raunverulegu vandamál eru á þessum svæðum og hjá þessum þjóðum. Ef vandamálið er heimatilbúið og ekkert í því gert er því miður mikill vindmylluslagur fram undan gagnvart hverri þjóð sem þannig er komið fyrir en við þurfum að greina vandamálið og takast á við það með lausnum sem eru raunverulega líklegar til að skila árangri, ekki bara til að okkur líði vel með það heldur til að þegnum þessara ágætu þjóða vegni betur.