148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[21:21]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að nærtækustu leiðirnar séu aukin viðskipti við þessar þjóðir, aukinn útflutningur þessara þjóða en kannski að miklu leyti líka það að styðja við innri uppbyggingu ef svo má segja. Hjá mörgum þessara þjóða er stjórnarfar býsna brogað. Eitt ríki á þessum lista er Síerra Leóne sem er því miður þannig komið fyrir og hefur verið þannig lengi að ástandið er stjórnarfarslega mjög slæmt og maður er alltaf hræddur við að fjármunir sem renni til slíkra ríkja endi að miklu leyti í vösum og hirslum illa innréttaðra manna eða afla.

Það sem er líklegast til að styðja við þróun þessara ríkja eru, eins og ég segi, meiri frjáls viðskipti, meiri uppfræðsla og þekking, með hvaða hætti sem hægt væri að koma því við. Ég á ekki svarið við þeirri spurningu, en augljóslega tiltækt svar og fær leið sem er m.a. verið að undirbyggja með ákvörðun í þessu frumvarpi snýst um aukin viðskipti. Ég held að þau séu fremst í röðinni en síðan þurfum við að styðja við það að innviðirnir styrkist á heimasvæðunum, annaðhvort sjálf eða með því alþjóðastarfi sem við erum í.