148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[21:25]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni fyrir seinna andsvarið. Auðvitað þurfum við að hafa þetta mjög alvarlega í huga. Þó að það sé auðvitað á öðrum forsendum en hjá þeim ríkjum sem nú er fjallað um erum við með landbúnaðarframleiðslu og matvælaframleiðslu á Íslandi sem er ein sú hreinasta í heimi. Það er staða sem er ekki víst að við náum til baka ef við glötum henni frá okkur. Bæði er það á grundvelli heilbrigðissjónarmiða og síðan held ég að það sé bara hluti af því að halda landi í byggð að styðja við innlenda matvælaframleiðslu og landbúnað sem henni tengist. Við sjáum þetta gert alls staðar í kringum okkur, það er sama hvort litið er vestur um haf, til Bandaríkjanna, eða til Evrópu. Þar er stuðningur við landbúnað víðast hvar meiri en hann er hér þrátt fyrir mun erfiðari ræktunarskilyrði á löngum köflum hér en víða í samanburðarlöndum okkar.

Ég held að það sem hefur verið að gerast í þessum vanþróuðu löndum, þar sem þróaðar þjóðir hafa verið að losa sig við umframframleiðslu á lágu verði, sé eitt af stærstu vandamálunum sem við er að glíma á heimamörkuðum þessara þjóða. Innlendur landbúnaður nær ekki að komast upp fyrir þau mörk sem nauðsynleg eru til að starfa með forsvaranlegum hætti, einfaldlega vegna þess að þangað koma, stundum á forsendum þróunaraðstoðar, stórar matarsendingar sem enginn gengur keppt við í verði á heimamarkaðnum og veldur þess vegna illbætanlegum skaða á honum.