148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[21:27]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir sína ræðu. Ég verð að viðurkenna að ég heyrði ekki alveg blábyrjunina á henni en reyndi að hlýða á restina, var lengst af ekki alveg viss um hvort hv. þingmaður væri hlynntur málinu eða ekki, þar til í lokin þegar hv. þingmaður sagði að hann teldi þetta gott skref.

Mig langaði til þess að heyra aðeins meira frá hv. þingmanni, hvernig hann sæi einhliða niðurfellingar á tollum almennt fyrir sér. Hér erum við að tala um 47 ríki, erum að tala um 97% af tollflokkunum, minnir mig að það heiti, og að gera þetta einhliða.

Ég er sjálfur ekki betur gerður en það að ég er hlynntur því að fella niður alla tolla. Mér finnst tollar vera ógeðslegir og finnst sjálfsagt að gera það einhliða. Hins vegar hef ég skoðun á öðru máli sem er hér til umræðu á eftir, ef tíminn leyfir, sem er fríverslunarsamningur við Filippseyjar, sem ég er alfarið á móti. Ég greiddi reyndar atkvæði gegn því að það kæmi einu sinni á dagskrá. Ástæðan er sú að þar er vitfirrtur fjöldamorðingi og brjálæðingur, Rodrigo Duterte, við völd sem er ekki einhver sem ég kæri mig um að gera samninga við né ríkið sem hann stýrir. En nú eru hér 47 lönd sem um ræðir. Stjórnamálaástandið í þeim mörgum er mjög slæmt eins og hv. þingmaður fór yfir.

Í fyrsta lagi langar mig að heyra vangaveltur hv. þingmanns í kringum þessi atriði, hvort hv. þingmaður sjái mun á því að fella niður tolla einhliða, eins og hér er lagt upp með, eða að gera fríverslunarsamninga, eins og er lagt upp í öðrum tilfellum, t.d. gagnvart vitfirringnum Duterte.