148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[21:29]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir andsvarið. Fyrst að spurningunni, hvort ég sé hlynntur einhliða niðurfellingu tolla. Svo að ég byrji á fyrstu spurningunni, af því að hv. þingmaður missti af upphafi ræðu minnar, þá lá þar alveg fyrir að ég væri fylgjandi þessu máli og ánægður með að það væri hér á dagskrá og fengi vonandi afgreiðslu.

Varðandi það hvort ég sé fylgjandi einhliða niðurfellingu tolla þá held ég að ég geti sagt til mikillar einföldunar, og verð að hafa hefðbundna fyrirvara á því, að ég held að því minni tollar sem eru í heimsviðskiptum almennt því betra. Með þeirri undantekningu þó að ég tel að við eigum að vernda innlenda matvælaframleiðslu með sérstökum tollareglum, svo að það sé sagt. Í meginatriðum öðrum eigum við að leitast við að hafa tolla sem fæsta og þar sem þeir eru á annað borð sem lægsta. En auðvitað þarf þetta að gerast þannig á milli þróaðra ríkja að þetta sé að virka í báðar áttir. Ég tel að það sé verjandi að gera þetta með þessum hætti gagnvart vanþróuðum ríkjum eins og þessum efnahagslega og þess vegna styð ég þetta.

Ég held að ég sé búinn að svara þessu. Hv. þingmaður minnir mig á ef ég hef gleymt einhverjum atriðum. En þetta eru meginsjónarmiðin.