148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[21:31]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er kannski að þjófstarta minni eigin ræðu, sem ég ætla að halda hér eftir augnablik, um þetta efni, ég kannski þarf ekkert að spyrja hv. þingmann mikið út í það. En seinni spurningin varðaði muninn á því að gera fríverslunarsamning við ríki annars vegar og hins vegar að fella niður tolla einhliða. Mér þykir svar hv. þingmanns áhugavert og sömuleiðis þessi sjónarmið í kringum verndartolla.

Mig langar þá að spyrja hv. þingmann hvort hann geti upplýst fávísan mann eins og mig: Hvers vegna ætti að vera eitthvað betra fyrir mat að vera framleiddur í skjóli verndartolla en aðra vöru og þjónustu? Ef við myndum taka af alla verndartolla af matvörum hér þá myndi framboð á mat væntanlega aukast heldur mikið, ég geri ráð fyrir því.

Það er í raun og veru eina sem mér dettur í hug og hv. þingmaður má gjarnan fræða mig hér. Ástæðan fyrir því að við viljum verja sérstaklega matvælaframleiðslu hér er til þess að halda uppi matvælaöryggi sem mér skilst að sé í kringum 50% í dag — hef það eftir ágætum þingmanni Framsóknarflokksins frá þarsíðasta kjörtímabili. Er ekki hægt að ná þeim markmiðum með því einfaldlega að ríkisstyrkja framleiðsluna og þá taka burt tollana hvort sem er? Er þörf á því að hafa tollvernd til þess að tryggja innlenda framleiðslu á matvælum? Eða eru einhverjar aðrar forsendur en matvælaöryggi sem hv. þingmaður lítur til þegar hann nefnir matvæli sérstaklega, að þau eigi að vera undanskilin því góða prinsippi, sem ég er að öðru leyti sammála, að tollar séu í eðli sínu slæmir og eigi almennt ekki að vera til staðar.

Ég er þeirrar skoðunar sjálfur að tolla eigi ekkert að nota nema í refsingarskyni eða til að láta í ljós óvild eins og gagnvart vitfirringnum Duterte. Ég get alveg tekið það í mál. Ég er ekkert viss um að það sé góð hugmynd að setja sérstaka tolla gagnvart slíkum aðilum. Í eðli sínu tel ég þá slæma og ég átta mig ekki alveg á því, borgarbarn og vitleysingur eins og ég er, (Forseti hringir.) hvers vegna við notum ekki bara ríkisstyrki við þá framleiðslu sem við viljum hafa hér innan lands til að tryggja matvælaöryggi og sleppum tollunum. Getum við ekki gert það?