148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[21:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir firnagóða ræðu. Það er alltaf gaman að hlusta á þingmanninn og þingmenn yfirleitt þegar þeir flytja ræður um málefni sem þeir hafa mikla sannfæringu fyrir eða er þeim mikilvægt eins og þetta málefni er klárlega fyrir hv. þingmanni.

Hv. þingmaður talaði töluvert mikið um það bæði í ræðu sinni og andsvörum að hann væri hrifinn af því að fella einhliða niður tolla. Er það gilt sjónarmið eins og hvert annað. Í flestum löndum heims, ef ekki öllum, eru tollar notaðir með einhverjum hætti eða aðrar hindranir, ef við köllum tolla hindranir, sérstaklega þegar kemur að landbúnaðarvörum. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki þannig að til þess að draumsýn hans rætist, að við losnum við alla tolla, verði allir að fallast á hans skoðun, að tollar séu slæmir og þeir felldir niður. Eða telur þingmaðurinn að Ísland, þetta fámenna land, strjálbýla land, geti riðið á vaðið og fellt einhliða niður alla tolla, lýst Ísland tollfrjálst og -frítt land þar sem engir tollar eru á nokkrum sköpuðum hlut, sérstaklega ætla ég að nefna landbúnaðarvörur, í ljósi m.a. þess sem hv. þingmaður nefndi, matvælaöryggis? Til þess að hafa matvælaöryggi þurfum við að hafa framleiðendur til að framleiða og búa til vörurnar. Við erum að tala um fæðuöryggi, fyrirgefið. Til að hafa fæðuöryggið í lagi þurfum við slíka framleiðendur. Matvælaöryggi er að sjálfsögðu annað mál.

Hefur hann engar áhyggjur af því að ef við ein ákveðum að fella niður tolla einhliða verði samkeppnisumhverfi þessara mikilvægu framleiðenda til að tryggja fæðuöryggi erfitt?