148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[22:00]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Ég get verið sammála um að í draumheiminum, hinum fullkomna heimi frjálsra viðskipta, væru sjálfsagt engir tollar. Við sjáum hins vegar þróunina, þó svo að við séum mögulega að taka eitt skref með þessu þingmáli. Eitt stærsta ef ekki stærsta efnahagsveldi heims og leiðtogi þess hefur lýst yfir að alþjóðlegir viðskiptasamningar og samkomulag um tolla og annað sé ekkert mjög sniðugt og er kominn á ról með ákveðna einangrunarstefnu. Ég held að við séum að færast aðeins fjær draumheimi þingmannsins og kannski mínum líka, ef það væri hægt að nálgast þessa draumheima.

En um fæðuöryggið aftur. Það má kannski segja að það sé hægt að fara þá leið sem þingmaðurinn nefnir einhliða í hvaða landi sem er ef ríkið er á móti tilbúið til að stórauka niðurgreiðslur til framleiðslunnar því að allir vita að framleiðslan getur ekki staðið undir sér (Forseti hringir.) ef hún er ekki seld á sömu hillu og aðrir selja.