148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[22:01]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hugsa að taktísk leið til að nálgast það vandamál væri sjálfsagt að reyna að fella niður tolla tvíhliða eða marghliða eða með einhvers konar viðskiptasamningum við helstu viðskiptalönd. Það yrði væntanlega leiðin sem yrði farin. Íslensk vara kæmist á annan markað jafnt sem vara annarra hingað. Og kannski væri það dæmi um eitthvað sem margir þyrftu að taka sig saman um að fella niður. Svo má vera.

Þótt við þyrftum að auka fjárveitingar til innlendrar framleiðslu á matvælum til að standa undir matvælaöryggi er það eitthvað sem þjóðríki þurfa almennt að gera til að tryggja öryggi sitt. Það þarf að setja peninga í margs konar þjóðaröryggi. Það er gert miðlægt, með skattkerfinu. Það getur þýtt hærri upphæðir úr ríkissjóði eða hvernig svo sem útfærslan á þeim hugmyndum yrði. En við megum ekki gleyma kostnaðinum sem er nú þegar til staðar með tollunum. (Forseti hringir.) Sá kostnaður er enn þá til staðar.

Síðast en ekki síst, og mér leiðist hvað við höfum stuttan tíma til að ræða þetta, eru fleiri rök notuð fyrir tollakerfinu (Forseti hringir.)á Íslandi en þessi. Hv. 4. þm. Norðaust. nefndi hreinleika vörunnar. Því miður höfum við ekki meiri tíma til að ræða það en komum sennilega að því aftur síðar.