148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[22:05]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú sýnist mér aftur tíminn ekki ætla að duga til að ég geti svarað hv. þingmanni. Ég nefndi fyrirvara í ræðu minni, reyndi að vera eins skýr og ég gat og nefndi líka í andsvörum áðan við hv. þingmenn, samflokksmenn hv. þingmanns, ýmsa fyrirvara gagnvart þeirri hugsjón sem ég hef um tollalausan heim. Það sama gildir um landamæralausan heim. Það eru fyrirvarar gagnvart því sem ég gerði grein fyrir, þ.e. að þegar þessir hlutir eru komnir getur verið vandasamt að losna við þá. Ég vil samt stefna í þá átt. Það getur tekið tíma, það getur verið flókið. Í því geta alveg verið og eru yfirleitt flækjur, eins og ég taldi mig hafa verið skýran um áðan. Góðum áformum og góðum markmiðum geta fylgt aukaverkanir eða hliðarverkanir sem manni finnast óæskilegar. Þá þarf auðvitað að staldra við og reyna að finna út úr þeim líka. Ég taldi mig vera skýran í ræðu minni og andsvörum við hv. þingmenn. Ég vona að þetta dugi.

Hvað varðar vinstri anarkista-/frjálshyggju-Pírata-greiningu hv. þingmanns er til eitthvað sem heitir „libertarian socialist“, eða einhvers konar sósíalískur frjálshyggjumaður, hygg ég. Noam Chomsky telur sig t.d. til þeirrar áttar. Hægt er að sveifla þessum hugtökum fram og til baka. Ég er ekkert hissa á því að erfitt þyki að setja Pírata í einhvern tiltekinn hóp þarna vegna þess að í fyrsta lagi eru Píratar alls staðar á ásnum. Það eru hægri Píratar og vinstri Píratar og mið Píratar og síðan fullt af Pírötum sem hafna ásnum í grunninn. Ef hv. þingmaður hefur einhvern sérstakan áhuga á að vita hvernig ég stimpla mig hefur mér liðið best með stimpilinn sósíaldemókrata. Mér finnst það fínn stimpill, ég hef ekkert við hann að athuga. En síðan er ég líka Pírati út af öllum þeim góðu gildum sem birtast í grunnstefnu Pírata.

Að lokum þetta: Vinstrinu og frelsi hefur verið stillt upp sögulega sem andstæðum. Ég hafna því. Kannski ég komi að í síðara andsvari ef hv. þingmaður leyfir mér að halda áfram með þá góðu umræðu.