148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[22:09]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé enga leið til að tryggja hérna matvælaöryggi án þess að setja peninga í það á stað sem hið frjálsa hagkerfi myndi annars ekki setja þá. Ég sé enga leið persónulega. Ef markmiðið er að halda uppi matvælaöryggi í landinu, markmið sem ég trúi á og held að allir hér inni trúi á og þótt víðar væri leitað, þá þýðir það að setja þarf fjármuni í það. Við erum að borga fyrir það núna í gegnum tollafyrirkomulagið. Og mig langar til að ræða betur öll þessi rök um hreinleika vörunnar og allt það í sérstöku þingmáli, að íslensk vara hefur líka erindi annars staðar. Sömuleiðis það að íslenskir neytendur vilja ekkert einfaldlega það sem er ódýrast. Það er ekki þannig.

En til að svara hv. þingmanni á síðustu sekúndunum í sambandi við vinnuaflið. Nú erum við í EES. Um það bil 500 milljón manns, eða um 7% dýrategundarinnar okkar, mega koma hingað í dag og vinna. Það má. Allir Ítalir, allir Grikkir, allir Spánverjar, allir Þjóðverjar mega koma til Íslands í dag (Forseti hringir.) að vinna ef þeir vilja. Ég sé ekki að það sé hræðilegt vandamál. (Gripið fram í.) Eins og ég sagði áðan: Draumaheimur minn er án landamæra. Hvernig við komumst þangað? Ég er ekki með töfralausn á því, ég þykist ekki hafa hana og kann vel við þegar fólk lætur ekki eins og ég sé að koma með einhverja töfralausn.