148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[22:10]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Það væri ánægjulegt ef hæstv. ráðherra gæti verið hér í salnum við þessa umræðu. Ég held að það sé ekki til of mikils mælst því að við ræðum þingmál sem ráðherrann mælti fyrir. Ég óska eftir því að ráðherra komi hér og hlýði á ræður þingmanna. Ég er með tvær, þrjár spurningar til ráðherra sem væri fínt að fá svör við.

Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum. Þetta er að sjá einfalt mál. Það er verið að liðka til fyrir u.þ.b. 47 ríki til að flytja út ákveðnar vörur til landa án tolla. Ísland er í raun að gangast við og innleiða ákveðnar skuldbindingar sem við höfum tekist á hendur sem aðilar að Alþjóðaviðskiptastofnuninni, svo að ég fari hratt yfir þetta allt saman. Talað er um þau lönd sem skemmst eru komin í þróun eins og þau eru skilgreind af efnahags- og félagsmálaráði Sameinuðu þjóðanna. Farið er yfir tollfríðindin eða til hvaða vöruflokka þau fríðindi ná ekki. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Að höfðu samráði við ráðuneyti er fara með mál er varða sjávarútveg, landbúnað og útflutning er ráðherra heimilt að setja með reglugerð sérstakar upprunareglur sem gildi við innflutning vörunnar.“

Það væri ágætt að hafa ráðherra hér til þess að spyrja út í hlutina. Ég ætla að doka aðeins með þessa spurningu.

Hér hefur verið rætt hvort afnema eigi tolla einhliða eða hvort tollar eigi að vera hluti af samningum. Ég held að það sé slæmt ef Íslendingar halda áfram á þeirri braut, sem hefur verið mörkuð undanfarin ár, sérstaklega undir forystu Sjálfstæðisflokksins, að afnema mikið af tollum og gjöldum án þess að fá eitthvað í staðinn fyrir það. Þegar við gerum það færist þrýstingurinn óneitanlega á vöruflokka sem munu bera tolla áfram. Við erum enn að gera viðskiptasamninga. Við erum áfram að gera samninga við erlend ríki eða aðila og við hljótum að þurfa að láta eitthvað af hendi í þeim viðræðum og fá eitthvað í staðinn. Þegar við erum búin að aflétta svo og svo miklu af okkar tollum og gjöldum þá er lítið að gefa á móti. Þess vegna segi ég að við eigum að fara varlega í þetta allt saman.

Nú er hæstv. ráðherra kominn í salinn og þá ætla ég aðeins að snúa til baka í greinina þar sem talað er um reglugerð um sérstakar upprunareglur sem gildi við innflutning vöru. Ég spyr: Á sú reglugerð, eða þær reglur sem á að setja um uppruna, eingöngu við um vörur frá þessum 47 ríkjum? Eða er hugmyndin að ráðherra geti sett reglur um vörur frá öðrum ríkjum? Erum við þá að tala um að upprunareglur sem verða settar taki mið af reglum EES-samningsins eða Evrópusambandsins? Þetta er spurning sem ég beini til ráðherra í þetta skipti. Það er önnur spurning sem ég kem að hér á eftir.

Mitt mat er að mikilvægt sé að Íslendingar geri miklu harðari kröfur um upprunareglur, um upprunaupplýsingar, um heilsufarsupplýsingar, í matvælum; um það hve mikið er notað af lyfjum við matvælaframleiðslu, hve mikið af eiturefnum o.s.frv. Mín skoðun er sú að við eigum að ganga lengra en reglur almennt hljóða upp á. Að sjálfsögðu verðum við að vera innan þeirra heimilda sem við höfum. En það er þannig, þegar við komum í búðir í dag, að ekki er alveg ljóst hvað við erum að kaupa. Það stendur með litlum stöfum að varan sé frá ákveðnu landi, mjög litlum stöfum reyndar. Það kemur ekki fram hvort lyf hafi verið notuð við framleiðsluna eða eiturefni.

Ég er að velta þessu fyrir mér í ljósi neytendaverndar, í ljósi þess að neytendur eiga rétt á slíkum upplýsingum. Ég er ekki að hugsa um þetta til þess að vernda eitthvað eða stoppa eitthvað, ég er bara að hugsa um hag neytenda. Þegar þú kemur inn í verslun og þar er innflutt vara, hvort sem það er kjöt, ávöxtur eða hvað það er, að þá liggi ljóst fyrir hvaðan varan er upprunalega; fyrsta landið, hvar hún er framleidd, ekki að hún hafi farið í gegnum síur og þvottastöðvar eða guð má vita hvað, umpakkanir, í Evrópu. Ég er að hugsa um það að í versluninni liggi blað eða upplýsingaskilti, eða það standi á vörunni sjálfri, að við framleiðsluna hafi svo og svo mikið verið notað af sýklalyfjum eða öðrum lyfjum. Í fullkomnum heimi væri hægt að fá slíkar upplýsingar og neytendur gætu valið vörur sem eiturefni hefðu verið notuð til að framleiða, t.d. skordýraeitur; að neytandinn sjái svart á hvítu hvað hann er að kaupa. Einhver myndi segja: Þetta eru bara hindranir fyrir innflutning. Það eru flokkar hér á þingi sem gæti alveg dottið í hug að segja það, meira að segja flokkar sem tala mikið um neytendur. Það sem vakir fyrir mér fyrst og fremst er að tryggja að neytendur viti hvað þeir eru að kaupa. Þar fyrir utan skammast ég mín ekkert fyrir að halda því fram að innlend framleiðsla kæmi vel út í þessum samanburði.

Á fyrstu síðu frumvarpsins er svo talað um dagsetningar. Á bls. 2, um miðja síðu, kemur fram að ríkin sem um ræðir eigi það sameiginlegt að þar séu tekjur lágar og tekjuöflunarmöguleikar litlir o.s.frv., þar sé innviða- og skipulagsskortur. Það gerir að verkum að þau eru ósjálfbær að miklu leyti, eiga erfitt með að takast á við efnahagsáföll, umhverfisslys o.s.frv. Það leiðir hugann að því að málið er í sjálfu sér ágætt. Ég er hlynntur málinu. En ég velti líka fyrir mér hvort ekki sé tækifæri falið í því að hjálpa þessum ríkjum enn frekar með því að auka þróunaraðstoð við þau; þessi ríki eiga svo sannarlega erfiðara en mörg önnur með að framleiða vörur sínar. Tvær leiðir eru til þess, bæði fjölþjóðlega eða tvíhliða. Með því að gera það getum við einmitt styrkt innviðina. Við getum aukið gæðin. Við getum tekið framleiðsluna aðeins lengra, gert úr henni meiri verðmæti. Við Íslendingar höfum gert þetta í nokkrum mæli. Við höfum verið að mennta fólk á Íslandi, í Háskóla Sameinuðu þjóðanna, sem hefur farið til heimalanda sinna og gert þar ágæta hluti. Við höfum líka verið að flytja út þekkingu, t.d. hvernig maður notar jarðhita til að þurrka matvæli, fisk, ávexti eða hvaðeina. Þarna getum við gert enn betur ef við aukum þessa aðstoð.

Því langar mig að spyrja ráðherra hvort sá möguleiki hafi verið ræddur, í tengslum við þetta mál, í ríkisstjórn að beina fjármunum í frekari vöruþróun með þessum ríkjum; að ekki sé eingöngu verið að fella niður tolla af vörum heldur sé líka verið að auka verðmæti vörunnar með ákveðinni aðstoð. Ég held að það gæti orðið gríðarlega skemmtilegt verkefni og það fellur ágætlega að þeim hugmyndum sem við höfum séð í skýrslum, og væntingum hæstv. utanríkisráðherra, þar sem talað er um að auka viðskiptatengda þróunaraðstoð. Mér finnst það reyndar mjög áhugavert mál, ekki síst í ljósi þess að hér yrði ríkisstjórn undir forystu sósíalista að leggja til að gera þróunarsamvinnuna að meiri bisness.

Ekki fyrir svo löngu var það, minnir mig, eiginlega bannorð þegar verið var að ræða þróunaraðstoð. Ég man ekki betur en þegar ég beitti mér fyrir því að Þróunarsamvinnustofnun og þróunarsamvinnusvið utanríkisráðuneytisins yrðu sameinuð hafi verið haft býsna hátt um það að ekki mætti bissnessvæða þróunaraðstoð.

En þarna er ég búinn að benda á tækifæri sem geta styrkt nákvæmlega þessi sömu ríki og við erum hér að tala um, þ.e. með því að lyfta tollum, standa við skuldbindingar okkar, en um leið að beita okkur fyrir því að gæði og verðmæti þeirrar vöru sem framleidd er, væntanlega í flestum tilfellum landbúnaðarvörur, aukist. Þar af leiðandi skapast meiri verðmæti, meiri útflutningstekjur og væntanlega mun hagur þessara ríkja vænkast.

Við eigum ekki að láta staðar numið þar. Það er nefnilega þannig að í mörgum þessara ríkja er mjög mikil misskipting milli karla og kvenna eins og við þekkjum. Konur mega jafnvel ekki eiga lönd, þær mega ekki eiga bústofn, þær mega ekki stofna fyrirtæki o.s.frv. Það hefur hins vegar sýnt sig að þar sem konum er gert kleift að taka virkari þátt í efnahagslífinu, í atvinnulífinu, þar batna hlutirnir hraðar. Ég ætla ekki að gleyma að nefna hér að menntun er að sjálfsögðu gríðarlega mikilvæg. Við Íslendingar höfum gert ágæta hluti með því að leggja áherslu á jafnrétti, á valdeflingu kvenna og að tala þeirra máli þegar kemur að þessum mikilvægu þáttum í hverju landi, fyrir hverja þjóð, að innviðirnir séu ekki eingöngu á höndum karla. Ekki er langt síðan bændur á Íslandi, jarðeigendur, voru í raun bara karlar. Konur áttu ekki möguleika á að eiga jarðir eða bú. Það er nú sem betur fer breytt.

Málið er mjög gott. Það hefur á sér margar hliðar. Við getum gert ýmislegt annað en að létta af tollunum. Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað og varað við því að óprúttnir aðilar eða jafnvel ríki kunni að misnota sér þá aðstöðu sem þessi ríki eru í með því að fara í mannaflsfreka, ódýra, illa launaða, illa þokkaða framleiðslu jafnvel, til þess að komast inn á þessa markaði sem verið er að lyfta tollum af. Ég vonast til þess að þegar stóra myndin er skoðuð græði fleiri á því en fari illa út úr því. Það getur verið varasamt að einfalda aðgang að mörkuðum án þess að gera kröfur á móti. Nú þekki ég ekki alveg hvaða kröfur eru gerðar af hálfu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og þeirra ríkja sem samþykkja þetta, ég verð að viðurkenna það.

Virðulegi forseti. Ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur að þetta mál skýrist vel þegar það kemur til umræðu í nefnd. Ég held reyndar að það sé ágætt að það fái hér góða umræðu í fyrstu atrennu því að í því eru atriði sem óhætt er að skýra betur, atriði sem hægt er að tengja við þetta mál. Eins og þessar þrjár spurningar sem ég hef beint til hæstv. ráðherra fela í sér opnar þetta mál á vangaveltur og pælingar um frekari stuðning við ríki sem þessi.

Mig langar að nefna annað. Þegar tækifæri gefast til aukinna viðskipta er sjálfsagt að gerð sé ákveðin krafa. Nú er ég ekki að segja að við eigum að ganga fram af gríðarlegri hörku á hendur þessum ríkjum, en það hlýtur að vera eðlilegt að við gerum ákveðnar kröfur um umhverfisvottun, þ.e. hvernig vörurnar eru framleiddar, við hvaða aðstæður og slíkt, í það minnsta að við höfum upplýsingar um hvernig það er. Við vitum að sjálfsögðu að mörg þessara ríkja eru því miður háð kolum til orkuframleiðslu, bara til þess að hafa ljós eða rafmagn á vélarnar. Það á að sjálfsögðu ekki að stoppa það að þau geti flutt vörur út og komist á þann stað þar sem við erum. En við eigum hins vegar að leggja áherslu á að hjálpa þessum ríkjum til þess að losna úr þessari vondu orku, úr þessu jarðefnaeldsneyti sem er verið að nota, sérstaklega kolin. Það er vitanlega miklu betra að nota gas eða olíu en kol. Og auðvitað eigum við að halda áfram að beina jarðhitanum inn á þau svæði þar sem það er klárlega hægt. Má þar nefna Sigdalinn mikla í Afríku og fleiri ríki Asíu og fleiri staði þar sem augljóslega er hægt að nota miklu meira af umhverfisvænni orku til að framleiða vörur.

Með því að samþykkja og uppfylla þessa skilmála eða samninga, sem við erum klárlega aðilar að, getum við beitt okkur enn meira og enn betur. Við getum gert stærri hluti og eigum að gera stærri hluti. Til þess þarf vilja og fjármagn. Því miður sakna ég þess að hafa ekki séð neinn metnað til þess í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar að fé verði aukið til þróunaraðstoðar nema það sem er reiknað til alþjóðlegra stofnana.