148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[22:28]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé mikilvægt að leiðrétta hv. þingmann strax, þetta er algengur misskilningur. Matvælaöryggi er það að matvælin séu holl og örugg, fæðuöryggi er magnið. Ég hugsa að hv. þingmaður sé að tala um fæðuöryggi.

Í dag er það þannig, held ég, að fæðuöryggi okkar er tryggt að helmingi, rúmlega það kannski. Ef það er eini mælikvarðinn sem menn ætla að nota, að tryggja fæðuöryggið, þá má örugglega færa rök fyrir því að tollar séu ekki nauðsynlegir. En við erum vitanlega að hugsa um fleiri hluti. Við erum að hugsa um að framleiða heilnæm og holl matvæli, hafa matvælaöryggið í lagi. Við erum að tala um að neytendur á Íslandi geti keypt hreinar afurðir sem eru ræktaðar við þær bestu aðstæður sem (Gripið fram í.) standa mönnum til boða.

Gleymum því ekki að matvælaframleiðsla á Íslandi er vitanlega atvinnugrein líka. Það eru þúsundir — ég man ekki hvort það eru 15.000 störf, þori ekki að fara með það — starfa sem eru tengd landbúnaðinum einum; miklu fleiri í sjávarútvegi að sjálfsögðu. Við erum því líka með tollum að tryggja störf, viðhald byggða og allt mögulegt. En ef við horfum eingöngu á fæðuöryggið þá held ég að þingmaðurinn geti fært rök fyrir máli sínu.

Ég hélt augnablik að hv. þingmaður væri að leiða mig í gildru; ég man eftir máli sem þingmaðurinn flutti um að rækta kjöt. Við þyrftum örugglega engar áhyggjur að hafa af tollum eða fæðuöryggi ef þingmanninum yrði að þeirri ósk sinni.