148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[22:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þetta. Ég verð nú bara að viðurkenna að ég hef ekki alveg þessa hugsun sem hv. þingmenn hafa, að geta horft svona langt fram í tímann, séð það að við getum ræktað kjöt eða eitthvað slíkt. Sjálfsagt er þetta handan við hornið. Ég efast ekkert um það. Ég hef lesið frumvarp og greinargerð hv. þingmanns með þingmálinu. (Gripið fram í.) Ég hef skoðað þetta. Ég hef séð fréttir af þessu og slíkt, en ég hef hins vegar ekki trú á að þetta verði eitthvert lykilatriði.

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn veltir fæðuöryggi áfram fyrri sér. Til þess að framleiða vöru þurfum við eldsneyti og við þurfum korn og ýmislegt annað sem við erum að flytja inn. Við þurfum ákveðnar vörur sem við höfum ekki enn náð að framleiða hér á Íslandi. Vonandi kemur að því að við getum verið sjálfbær um sem mest af þessu, hvort sem það er eldsneyti, kjarnfóður eða annað sem þarf til þess að ala skepnurnar okkar.

Þegar á heildina litið erum við á þeim stað að við erum tryggð með helminginn af okkar fæðuöryggi, annað þurfum við að flytja inn. Við þurfum að gá að því hvernig við nálgumst það sem okkur vantar upp á með sem bestum hætti til þess að gæta annarra hagsmuna okkar en fæðuöryggisins eins og sér.

Annars held ég að þingmaðurinn hafi í raun hitt naglann á höfuðið, það eru margir hlutir sem við verðum að huga að.