148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[22:43]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Þetta mál, sem ég er fylgjandi eins og hefur vonandi komið fram, hefur þó vakið upp ýmsar spurningar og álitamál og að mínu viti mjög gagnlega umræðu um tollamál almennt sem eðlilegt er að setja í samhengi við frumvarpið.

Við heyrðum útlistun þingmanna úr ólíkum flokkum á því hvaða viðhorf þeir hefðu til tollamála almennt. Hér er vissulega um að ræða almenna eftirgjöf tolla gagnvart 47 ríkjum og það einhliða af hálfu Íslands, en það er ekki hægt að ráðast í slíka framkvæmd án þess að velta um leið fyrir sér áhrifunum af slíkri einhliða eftirgjöf og þeim möguleikum að hún kynni að verða, eins og sumir hafa talað fyrir hér, heimfærð á fleiri ríki, verða jafnvel almenn, þ.e. lúta ekki þeim sérstöku aðstæðum sem gilda í þessum 47 ríkjum og ég og margir aðrir hafa rakið hér heldur verða almenn regla. Sérstaklega hefur vakið athygli að þingmenn Pírata hafa í kvöld talað fyrir almennri, einhliða eftirgjöf Íslendinga af tollum.

Menn bæta svo reyndar við þegar gengið er á þá að þetta sé einhvers konar draumsýn, að af því að tollar séu komnir til sögunnar þurfi hugsanlega að gera einhverjar ráðstafanir áður en tollar eru afnumdir almennt. En vandamálið er einmitt að þetta sjónarmið byggir á draumsýn, útópíu, heimi sem er ekki raunverulega til staðar, og á þar af leiðandi heilmikið sameiginlegt með ýmsum gömlum kennisetningum, hugsjónum í stjórnmálum, eins og sósíalisma eða kommúnisma jafnvel og frjálshyggju á hinum kantinum, og gengur út á að menn hafa einhvern draum um hvernig heimurinn ætti að virka og reyna að laga stefnu sína og pólitík að þeirri draumsýn í stað þess að gera eins og Miðflokkurinn vill leggja áherslu á, laga lausnirnar að raunveruleikanum. Um það snýst stefna okkar, að laga lausnir okkar að heiminum eins og hann er.

Hér hefur verið rætt um þann möguleika að gefa eftir tolla en niðurgreiða þess í stað íslenska matvælaframleiðslu, þá gæðaframleiðslu sem íslenskir bændur og matvælaiðnaðurinn sjá okkur fyrir, til mótvægis við tollalækkunina. Þá hlýtur að eiga að gera það að því marki að íslenska gæðaframleiðslan sé samkeppnishæf í verði við þá erlendu umframframleiðslu verksmiðjubúa sem yrði hrúgað hér inn á markaðinn í tollleysinu, væntanlega með það að markmiði að íslensku gæðavörurnar sem eru samkeppnishæfar í verði eftir aukna niðurgreiðslu yrðu keyptar frekar en þær erlendu, með öðrum orðum að vernda íslensku framleiðsluna og halda erlendu framleiðslunni úti.

Þetta leiðir okkur fyrir sjónir þau eiginlegu verðmæti sem liggja í tollunum fyrir verðmætasköpun, framleiðslu á Íslandi, og mikilvægi þess að ef menn ætla að gefa þetta eftir almennt komi eitthvað á móti til samræmis frá viðskiptalöndum okkar. Það getur ekki verið að tilgangurinn með slíkum aðgerðum væri sá að láta fólk áfram kaupa erlendu verksmiðjuframleiðsluna sem hrúgað væri inn á markaðinn en styrkja áfram íslensku framleiðsluna án þess að hún væri keypt. Íslenska framleiðslan færi bara í urðun, væri styrkt og neytendur keyptu erlendu verksmiðjuframleiðsluna. Það getur ekki verið markmiðið. Markmiðið með slíkum aðgerðum hlyti að vera að niðurgreiða íslenska gæðaframleiðslu að því marki að menn keyptu hana frekar en innflutninginn, hún væri samkeppnishæf í verði, með öðrum orðum halda erlendu umframframleiðslunni burtu. Tilgangurinn með tollum er einmitt að standa vörð um íslenska framleiðslu og gera hana samkeppnishæfa gagnvart erlendri framleiðslu sem er framleidd með miklu lakari hætti en við myndum sætta okkur við hér.