148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[22:51]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var í rauninni ágætt að fá þetta andsvar, þessa gagnrýni, á ræðu mína fyrr í kvöld því það er rétt hjá hv. þingmanni að það var ekki búið að útlista þetta nánar. Ég spurði hv. þm. Helga Hrafn Gunnarsson út í þetta en það kom ekki alveg svar svoleiðis að það gafst ekki tækifæri til að leiða þetta mál til lykta.

Þetta er auðvitað nátengt, vinnumarkaður og vörur. Ég held að ég fari rétt með að viðskipti í heiminum, alþjóðaviðskipti, hafi aldrei verið jafn frjáls og árið 1913. Þá skall fyrri heimsstyrjöldin á og settar voru á nýjar hömlur. Svo kom heimskreppan og seinni heimsstyrjöldin. Ég held að heimurinn hafi aldrei aftur náð því stigi að vera með eins frjáls viðskipti og 1913.

En munurinn er sá núna að við höfum þróað vinnumarkaðinn á Vesturlöndum mjög mikið frá því sem var fyrir rúmum 100 árum. Við gerum mjög ríkar kröfur til atvinnurekenda og reyndar til launþega líka, gæðakröfur, öryggiskröfur en ekki hvað síst kröfur varðandi kjör. Það er ekki hægt að framleiða vörur, hvorki matvæli né annað á Íslandi, öðruvísi en að menn uppfylli ákveðin skilyrði, m.a. um kjör, sem ekki eru til staðar í þeim löndum sem við erum í samkeppni við. Ef við ætluðum að aflétta öllum tollum einhliða væri hægt að fara á svig við þá samninga sem gilda á Íslandi um kaup og kjör og öryggismál og ýmislegt fleira og losa sig við heilmikið af varningi inn á íslenska markaðinn sem væri framleiddur af fólki sem byggi við kröpp kjör, hefði ekki sanngjörn laun, byggi ekki við öryggi og setja með því allan vinnumarkaðinn á Íslandi og þær kröfur (Forseti hringir.) sem við teljum sjálfsagt að gera í uppnám.