148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[22:58]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka þá umræðu sem þegar hefur átt sér stað. Það er eitt og annað eftir af henni, grunar mig. Flest rökin sem komið hafa fram í fyrri ræðum vísa, held ég, í þá átt að almennt séu menn sammála um, með nokkrum undantekningum, að meginreglan eigi að vera sú í tollasamningum sambærilegum þessum, eða tollasamningum yfir höfuð, að um sé að ræða tvíhliða samninga, kaup kaups, að báðir aðilar fái eitthvað fyrir sinn skerf. Eins og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kom inn á í seinna andsvari sínu hér á undan er það bara hluti af almennum viðskiptum og samningum sem gerðir eru að báðir láta eitthvað af hendi, hvort sem það er niðurfelling tolla, innflutningsheimildir eða hvað það er, sem verið er að semja um í alþjóðasamningum hverju sinni.

Að því sögðu vil ég ítreka það sem ég sagði hér í fyrri ræðu minni að ég held að þessi nálgun, að fullgilda þetta samkomulag eins og hér er lagt til, sé virkilega jákvætt skref. Þó að hér sé um einhliða niðurfellingu tolla að ræða þá er það markmið í sjálfu sér, að mínu mati, að styðja við þróun þessara vanþróuðu ríkja í efnahagslegu tilliti. Besta leiðin til þess eru aukin og frjáls alþjóðaviðskipti. Auðvitað þarf, eftir þeim leiðum sem færar eru, að reyna að tryggja að þau verðmæti sem skapast á heimasvæðum þessara ríkja endi ekki öll í vösum og hirslum illmenna og hrotta. En það er nú þannig að það eru ýmsar lausnir sem menn eiga í alþjóðlegum viðskiptum til að draga úr líkunum á því að svo fari.

Ég held að hér séum við að stíga jákvætt skref hvað þetta varðar, þ.e. að undirbyggja aukin alþjóðleg viðskipti þeirra 47 ríkja sem hér um ræðir, og að það muni auka líkurnar á því að jafnt og þétt fjölgi þeim ríkjum sem komast undan þessari skilgreiningu. Þau eru ekki nema sex sem hafa dottið út úr þessum hópi enn sem komið er. Maður er hræddur um að einhverjar þjóðir, einhver lönd, séu á leið þarna inn í kjölfar heimatilbúinna vandamála. Ég held að þó að hægt gangi þurfum við að sinna þessu vel og gera þetta með opnum hug og styðja, eftir þeim leiðum sem okkur eru færar, við það að efnahagslífið á heimasvæðinu taki við sér. Það gera menn miklu frekar með viðskiptum en með tímabundnum styrkjum og gjöfum eða hvaða hugtak sem menn vilja nota yfir það.

Ég held það hafi verið hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson sem kom inn á það, í ræðu sinni fyrr í umræðunni, að gjöfin klárast, er oft og tíðum einskiptisaðgerð og heimasvæðið sem nýtur hennar í það skiptið er ekki alltaf bættara hvað varðar innviði eftir að gjöfin eða styrkurinn eða stuðningurinn er uppurinn. En það sem er miklu líklegra til að tryggja bætta stöðu til lengri tíma er að opna þessi samfélög upp. Það líka eykur líkur á því að auðveldara sé að koma upp fræðslu, menntun og þar fram eftir götunum á svæðunum; það held ég að sé markmið sem við eigum að leitast við að uppfylla.

Ég segi að endingu aftur í þessari seinni ræðu minni: Frjáls alþjóðaviðskipti eru líklegust til þess að koma þessu til leiðar.