148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[23:03]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði svo sem ekki að fara í andsvar við hv. þingmann, en ég rak augun í það sem fór fram hjá mér áðan í fyrri ræðu minni að á bls. 3 í frumvarpinu er talað um samráð. Það virðist hafa átt sér stað eitthvert innanhússsamráð í Stjórnarráðinu, ekkert annars konar samráð. Það stendur hér, með leyfi forseta:

„Áform um gerð frumvarpsins ásamt frummati á áhrifum þess voru tekin fyrir á ráðuneytisstjórafundi hinn 15. mars 2018. Ekki gafst ráðrúm til að kynna áformin almenningi í samræmi við ákvæði 3. gr. samþykktar ríkisstjórnarinnar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa og stjórnartillagna, sbr. 9. gr. reglna um starfshætti ríkisstjórnar. Þá vannst ekki heldur tími til ytra samráðs.“

Það sem ég velti fyrir mér er: Hvað í veröldinni í þessu frumvarpi kallar á það að asinn sé svona mikill að ekki sé hægt að eiga það samráð sem samkvæmt reglum greinilega á að eiga sér stað? Ég viðurkenni að þetta fór fram hjá mér áðan, en ég tel mig hafa reynt að glöggva mig nógu vel á frumvarpinu til að átta mig á því að það sé einhver dagsetning, alla vega hef ég ekki séð hana enn þá, sem rekur á eftir að það sé klárað, það kann að hafa farið fram hjá mér, tek það fram.

En það vakti athygli mína, með leyfi forseta, að „við undirbúning frumvarpsins var haft samráð við skrifstofu matvæla og landbúnaðar í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins og embætti tollstjóra.“

Vissulega snerta ákvæði frumvarpsins að mestu landbúnað og innflytjendur verslunar, en ég velti hins vegar fyrir mér: Hvað í veröldinni kallar á það að þetta fái slíkan hraða að ekki sé hægt að hafa lögbundið samráð?

Ég kem að öðru í seinna andsvari.