148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[23:05]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir andsvarið. Það verður nú að segjast eins og er að það er ýmislegt í farangri núverandi ríkisstjórnar sem að mati þeirra sem þar stýra kallar á asa, mikinn sprett, sem mér er alveg lífsins ómögulegt að skilja hvernig er til kominn.

Við sjáum það að síðar á dagskrá þessa fundar er komið enn einu sinni frumvarp um lækkun kosningaaldurs sem liggur fyrir að verður aldrei fyrr en eftir fjögur ár. Mér er lífsins ómögulegt að skilja hver asinn er að afgreiða það mál. Sama virðist vera með þetta. Það er ekki að sjá í frumvarpinu eða greinargerðinni með því að það sé nein tiltekin dagsetning sem kallar á þennan mikla sprett. En ég veit ekki, það má vera að þetta sé einhvers konar leið núverandi ríkisstjórnar til að klára mál með þægilegri hætti og þurfi þar af leiðandi að leggja minni undirbúningsvinnu í.

Ef hæstv. ráðherra væri hér í salnum myndi ráðherrann kannski bæta þessu á spurningalista sinn sem væri áhugavert að fá svar við hvað það er sem kallar á þennan mikla hraða að öllu samráði sem áskilið er hafi verið ýtt til hliðar. Það er ekkert í málinu sem ég þekki til sem útskýrir það. En hafandi í huga hanteringu á frumvarpi um lækkaðan kosningaaldur þá kemur þetta svo sem ekki mjög á óvart.