148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[23:09]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Svarið við spurningunni er já, ég deili þeirri skoðun með honum. Ég held að það sé bara sjálfsögð sanngirni gagnvart neytendum að þeir hafi gott aðgengi að upplýsingum um uppruna vöru og hreinleika hennar, hvaða efni hafi verið notuð og þar fram eftir götunum. Ég er ekki með þær reglur alveg á hreinu, en ég held ég fari samt nokkuð rétt með að hjá einhverjum nágrannaþjóða okkar séu þær reglur við lýði að vara þarf bara að stoppa í 24 tíma og vera umpökkuð til þess að mega stimplast með þá tilteknu þjóð sem upprunaland, það tiltekna land sem upprunaland.

Ég þarf nú aðeins að rifja þetta upp, en þetta undirstrikar kannski hvað neytandinn er oft í veikri stöðu til að sjá hverra gæða varan er sem hann er að kaupa, hvort sem það varðar uppruna eða hreinleika, svo dæmi sé tekið. Sömuleiðis held ég að þetta ætti að vera sérstakt markmið okkar og ég tel alveg fráleitt að líta á þetta sem sérstaka viðskiptahindrun að gera ríkar kröfur í þessum efnum. En ég held að þetta sé auðvitað hluti af því líka að gera íslenskum framleiðendum sem framleiða mjög heilnæma vöru mögulegt að keppa við gæðavöru erlendis frá, því leikreglurnar þurfa að vera jafnar. Það er leikur sem er ekki hægt að spila til lengri tíma að framleiða gæðavöru á Íslandi og keppast við niðurgreidda vöru sem framleidd er á köflum undir óforsvaranlegum aðstæðum erlendis frá. Það er afstaða mín í þessu.