148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[23:17]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína. Það er virkilega áhugaverður punktur sem hann kemur inn á sem snýr að landgræðslu og er þörf fyrir slík verkefni hjá mörgum þeirra landa sem hér er fjallað um. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson kom jafnframt inn á það sem nefnt var fyrr í umræðunni, þ.e. merkingarnar og hvort merkingum landbúnaðarvara ýmiss konar verði háttað öðruvísi, sem fallið gætu undir þá tollaundanþágu sem nú er verið að veita.

Sér hæstv. ráðherra, eftir að hafa gegnt embætti utanríkisráðherra fyrir ekki löngu síðan, að einhverjir tæknilegir annmarkar séu á því í ljósi þess hvernig þetta mál er fram sett að gera sömu kröfur til þessa innflutnings hvað merkingar varðar og annars innflutnings á landbúnaðartengdum vörum? Því að þó að við séum býsna sátt við að hér sé sett fram einhliða niðurfelling á tollum til handa þessum 47 þjóðum, held ég að það væri mjög bagalegt ef menn felldu jafnframt niður þær kröfur sem við gerum til innfluttra matvæla í ljósi matvælaöryggis sem við leggjum svo mikið upp úr hér á landi.