148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[23:19]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt í þeirri umræðu sem við eigum hér í tilefni af þessu frumvarpi þar sem í 1. gr. er talað um að hægt sé að setja reglugerð um upprunaupplýsingar, að litið sé til alls innflutnings. En til þess að gæta að öllum lögum og reglum og til þess að gæta að því að við förum ekki á svig við alþjóðasamninga, t.d. EES-samninginn, held ég að það sé alveg augljóst að sömu reglur þurfa að gilda um íslenska framleiðslu, sem er bara sjálfsagt mál. Auðvitað eiga allar þessar vörur að vera merktar eins. Kannski er ekki hægt að merkja umbúðirnar sjálfar, en í versluninni eiga a.m.k. að liggja fyrir með sannanlegum og sýnilegum hætti upplýsingar um innihald, lyf og allt það sem við teljum að koma þurfi fram og eðlilegt er að neytendur viti. Hvernig er meðferðin á dýrinu? Ég hef heyrt af því að erlendis þar sem menn reka lúxusgististaði séu kúnnarnir farnir að spyrja hvaðan varan komi, hvort hún sé frá löndum þar sem dýrum er misþyrmt eða lyf notuð. Þar eru líka sóknarfæri fyrir Íslendinga, að merkja vörur sínar.

Ég held að það væri í rauninni besta mál ef samræmdar reglur yrðu settar. Ég er enginn sérfræðingur í EES-samningnum. Þó svo að ég hafi verið ráðherra bæði í utanríkismálum og í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum get ég ekki fullyrt að hvergi standi með einhverju smáu letri eða þetta sé bannað. En það væri mjög undarlegt ef bannað væri að upplýsa neytendur með sannanlegum hætti um innihald eða framleiðslu á vöru. Ef það er gert með sama hætti við innlenda framleiðslu get ég ekki ímyndað mér annað en það sé löglegt og í rauninni bara sjálfsagt og eðlilegt. Ef svo er ekki þá er það bara staðfest endanlega hversu vitlaust þetta Evrópusamband er?