148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[23:21]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir andsvarið. Ég kom inn á það í fyrra andsvari að hv. þingmaður hefði verið utanríkisráðherra fyrir skömmu, og ber svo vel í veiði að hann var jafnframt landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra fyrir ekki svo löngu síðan. Þess vegna held ég að fáir af núverandi hv. þingmönnum hafi meiri þekkingu og skilning á því umhverfi sem snýr að innflutningi vara og hvernig honum öllum er háttað.

Það sem mig langar til þess að spyrja hv. þingmann um í seinna andsvari er: Hvernig metur hann að þessum málum sé háttað hvað núverandi innflutning varðar á þeim erlendu matvælum sem koma til landsins, annaðhvort undir þeim samningum sem þegar hafa verið gerðir tvíhliða, hver sem matvælin eru? Hvernig telur hann merkingu þeirra vara vera háttað í samhengi við það sem við höfum rætt hér um réttindi neytenda og hvort eðlilegt sé að gera neytendum kleift að meta hreinleika, gæði og það umhverfi sem varan var framleidd í? Það væri áhugavert að heyra sjónarmið hv. þingmanns hvað það varðar.