148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[23:23]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í þann stutta tíma sem ég náði að vera í stól sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra setti ég í gang ákveðna vinnu við að skoða hvaða möguleikar væru til þess að miðla betri upplýsingum til neytenda. Því miður, af ástæðum sem flestir þekkja, var kosið að hausti til, sem var náttúrlega algjör vitleysa. Þá varð lítið úr ákveðnum hlutum sem búið var að setja í gang, þar á meðal þessum. Það er hins vegar áhugavert að kanna hjá núverandi ráðherra hvort eitthvað hafi verið gert með þetta og athuga hvort sé ekki ástæða til að setja hér almennar reglur í þágu neytenda um merkingar á vörum.

Ég fæ ekki séð að bannað sé að það sama gangi yfir íslenska framleiðslu, þar sé samræmi en ekki mismunun. Eitt af því sem er hvað mikilvægast í þessum blessaða EES-samningi er að einsleitnin á að vera mjög mikil þegar kemur að neytendum, þegar kemur að upplýsingagjöf, þegar kemur að vörum og þess háttar, að það eigi að vera sem líkast. Þar af leiðandi er það vitanlega í þágu allra neytenda, bæði á Íslandi og annars staðar ef hertar reglur eru um upplýsingagjöf.

Ég þori ekki að fullyrða það, en mig minnir að ekki fyrir svo löngu síðan hafi verið einhver umræða innan Evrópusambandsins að auka þyrfti þessar upplýsingar. Hins vegar er reglulega birt tafla um lyfjainnihald í framleiðslu á kjötafurðum. Það er hreint út sagt sjokkerandi að sjá þá töflu, hversu gríðarlega mikið af lyfjum er notað í dýr víða í Evrópu. Ísland og Noregur skera sig úr hvað varðar það hversu lítið af lyfjum er notað við kjötframleiðslu. Þetta er vitanlega nokkuð sem neytendur eiga (Forseti hringir.) að fá að sjá og vita þegar þeir kaupa vörur.